Friday, December 21, 2007

Jón og séra Jón

Nú hefur Þorsteinn Davíðsson, einkasonur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem situr nú í stóli Seðlabankastjóra, verið ráðinn sem héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Þorsteinn gegndi sem kunnugt er starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar núverandi dómsmálaráðherra og einkavinar Davíðs Oddssonar um langt skeið. Af þeim sökum var Árni Matthiesen, dýralæknir og fjármálaráðherra, sem á sinn pólitíska frama að þakka Davíð Oddssyni, settur dómsmálaráðherra í málinu og skipaði hann Þorstein til starfsins.

Umsækjendur um starfið voru fimm. Nefnd sem lögum samkvæmt er falið að kanna hæfi umsækjenda fyrir dómsmálaráðherra raðaði umsækjendum í flokka eftir hæfi. Flokkarnir eru óhæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Ragnheiður Jónsdóttir og Þorsteinn Davíðsson voru af nefndinni álitin hæf en þeir Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson, aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson, lektor voru allir álitnir mjög vel hæfir, þ.e. settir tveimur flokkum ofar í hæfi en þau Ragnheiður og Þorsteinn.

Dýralæknirinn sem var að enda við að skila af sér þenslufjárlögum aldarinnar var sem sagt ósammála nefndinni.

Við þetta tilefni rifjast upp aðrar ráðningar á skyldmennum Davíðs til dómarastarfa, ellefu sendiherraskipanir sama manns á stuttum tíma, salan á Landsbanka Íslands til manna sem voru ekki einu sinni hæstbjóðendur, og önnur spillingarmál sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram með. Þau nýjustu eru sukkferjan sem sigla á til og frá Grímsey svo og stríðsmangið í Keflavík þar sem sjálfstæðismenn sitja allt í kringum borðið og gott ef ekki ofan á og undir því líka.

Tuesday, December 18, 2007

Stríðið er hafið

Nú er Inga Jóna að hefna sín fyrir aðför Davíðs að sér í borginni fyrir fáum árum. Útspili hennar þar sem hún etur saklausum eiginmanninum, sem bæ ðe vei ber titil forsætisráðherra, er augljóslega beint gegn Davíð, Styrmi, Kjartani, litlu dátunum sex í borginni og manninum sem ekki má nefna á nafn þótt allir viti við hvern átt er.

Stríðið er hafið. Valdataflið í Valhöll er byrjað. Hvernig bregst Seðlabankastjóri við í næsta leik?

Tuesday, December 4, 2007

Fjármálaráðuneytið hirtir dómsmálaráðherra

Man einhver eftir viðlíka umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um nokkurt lagafrumvarp ráðherra? Um er að ræða umsögn við frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um meðferð sakamála.

„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af rekstrarkostnaði sem hlýst af þessu frumvarpi.

Vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umræðu fjárlagafrumvarps gerir ráð fyrir að með frumvörpum sem leiða til aukinna útgjalda skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu dómsmálaráðuneytisins.“

Svo mörg voru þau orð. Lausatök ríkissstjórnarinnar í ríkisfjármálum birtast víða.

Sjá frumvarp dómsmálaráðherra og umsögn fjármálaráðuneytisins í heild sinni hér.

Monday, December 3, 2007

Þingflokkur Samfylkingarinnar á endurmenntunarnámskeið?

Í umræðum um þingsköp á Alþingi í síðustu viku lét Helgi Hjörvar, einn af uppáhaldsþingmönnum mínum á meðal Samfylkingarfólks, þau orð falla að „sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki Alþingi Íslendinga“.

Nú er margt til í þessum orðum hins háttvirta þingmanns en fróðlegt er að skoða hans eigin þingflokk og sjá hverjir þurfa að fara á námskeið hjá endurmenntun. Tekið skal fram að aðeins fór fram handahófskennd leit á vef Alþingis og ljóst af þeim stutta tíma sem hún tók að vafalítið væri hægt að finna fjölmörg dæmi til viðbótar af mörgum ræðum þingmanna Samfylkingarinnar sem oft hafa farið mikinn og dvalið lengi í ræðustól Alþingis, a.m.k. á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Einn þeirra þurfti meira að segja að gera hlé á máli sínu til að skreppa á salernið!

Hér að neðan má finna yfirlit yfir núverandi þingmenn Samfylkingarinnar og fáein dæmi um ræður þeirra sem hafa tekið lengri tíma en 15 mínútur í flutningi:

Helgi Hjörvar - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ágúst Ólafur Ágústsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Árni Páll Árnason - Virðist vera eini þingmaður Samfylkingarinnar sem nú er á þingi sem hefur hvergi í samfelldri ræðu talað lengur en í 15 mínútur, enda settist þingmaðurinn ungi aðeins inn á Alþingi sl. vor.

Ásta R. Jóhannesdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Björgvin G. Sigurðsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Einar Már Sigurðarson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ellert B. Schram - sjá t.d. ræðu hans hér.

Guðbjartur Hannesson - sjá t.d. ræðu hans hér. Umræðuferillinn er hér.

Gunnar Svavarsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Jóhanna Sigurðardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Karl V. Matthíasson - sjá t.d. ræðu hans hér. Framhaldið er hér.

Katrín Júlíusdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér og hér.

Kristján L. Möller - sjá t.d. ræðu hans hér.

Lúðvík Bergvinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér. Umræðuferillinn er hér.

Þórunn Sveinbjarnardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Össur Skarphéðinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Af þessu má sjá að 17 af 18 þingmönnum Samfylkingarinnar þurfa klárlega að skrá sig á námskeið hjá endurmenntun ef marka má orð Helga Hjörvars. Skyldi ekki vera hægt að fá hópafslátt?