Friday, December 21, 2007

Jón og séra Jón

Nú hefur Þorsteinn Davíðsson, einkasonur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem situr nú í stóli Seðlabankastjóra, verið ráðinn sem héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Þorsteinn gegndi sem kunnugt er starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar núverandi dómsmálaráðherra og einkavinar Davíðs Oddssonar um langt skeið. Af þeim sökum var Árni Matthiesen, dýralæknir og fjármálaráðherra, sem á sinn pólitíska frama að þakka Davíð Oddssyni, settur dómsmálaráðherra í málinu og skipaði hann Þorstein til starfsins.

Umsækjendur um starfið voru fimm. Nefnd sem lögum samkvæmt er falið að kanna hæfi umsækjenda fyrir dómsmálaráðherra raðaði umsækjendum í flokka eftir hæfi. Flokkarnir eru óhæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Ragnheiður Jónsdóttir og Þorsteinn Davíðsson voru af nefndinni álitin hæf en þeir Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson, aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson, lektor voru allir álitnir mjög vel hæfir, þ.e. settir tveimur flokkum ofar í hæfi en þau Ragnheiður og Þorsteinn.

Dýralæknirinn sem var að enda við að skila af sér þenslufjárlögum aldarinnar var sem sagt ósammála nefndinni.

Við þetta tilefni rifjast upp aðrar ráðningar á skyldmennum Davíðs til dómarastarfa, ellefu sendiherraskipanir sama manns á stuttum tíma, salan á Landsbanka Íslands til manna sem voru ekki einu sinni hæstbjóðendur, og önnur spillingarmál sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram með. Þau nýjustu eru sukkferjan sem sigla á til og frá Grímsey svo og stríðsmangið í Keflavík þar sem sjálfstæðismenn sitja allt í kringum borðið og gott ef ekki ofan á og undir því líka.

No comments: