Friday, December 21, 2007

Jón og séra Jón

Nú hefur Þorsteinn Davíðsson, einkasonur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem situr nú í stóli Seðlabankastjóra, verið ráðinn sem héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Þorsteinn gegndi sem kunnugt er starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar núverandi dómsmálaráðherra og einkavinar Davíðs Oddssonar um langt skeið. Af þeim sökum var Árni Matthiesen, dýralæknir og fjármálaráðherra, sem á sinn pólitíska frama að þakka Davíð Oddssyni, settur dómsmálaráðherra í málinu og skipaði hann Þorstein til starfsins.

Umsækjendur um starfið voru fimm. Nefnd sem lögum samkvæmt er falið að kanna hæfi umsækjenda fyrir dómsmálaráðherra raðaði umsækjendum í flokka eftir hæfi. Flokkarnir eru óhæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Ragnheiður Jónsdóttir og Þorsteinn Davíðsson voru af nefndinni álitin hæf en þeir Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson, aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson, lektor voru allir álitnir mjög vel hæfir, þ.e. settir tveimur flokkum ofar í hæfi en þau Ragnheiður og Þorsteinn.

Dýralæknirinn sem var að enda við að skila af sér þenslufjárlögum aldarinnar var sem sagt ósammála nefndinni.

Við þetta tilefni rifjast upp aðrar ráðningar á skyldmennum Davíðs til dómarastarfa, ellefu sendiherraskipanir sama manns á stuttum tíma, salan á Landsbanka Íslands til manna sem voru ekki einu sinni hæstbjóðendur, og önnur spillingarmál sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram með. Þau nýjustu eru sukkferjan sem sigla á til og frá Grímsey svo og stríðsmangið í Keflavík þar sem sjálfstæðismenn sitja allt í kringum borðið og gott ef ekki ofan á og undir því líka.

Tuesday, December 18, 2007

Stríðið er hafið

Nú er Inga Jóna að hefna sín fyrir aðför Davíðs að sér í borginni fyrir fáum árum. Útspili hennar þar sem hún etur saklausum eiginmanninum, sem bæ ðe vei ber titil forsætisráðherra, er augljóslega beint gegn Davíð, Styrmi, Kjartani, litlu dátunum sex í borginni og manninum sem ekki má nefna á nafn þótt allir viti við hvern átt er.

Stríðið er hafið. Valdataflið í Valhöll er byrjað. Hvernig bregst Seðlabankastjóri við í næsta leik?

Tuesday, December 4, 2007

Fjármálaráðuneytið hirtir dómsmálaráðherra

Man einhver eftir viðlíka umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um nokkurt lagafrumvarp ráðherra? Um er að ræða umsögn við frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um meðferð sakamála.

„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af rekstrarkostnaði sem hlýst af þessu frumvarpi.

Vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umræðu fjárlagafrumvarps gerir ráð fyrir að með frumvörpum sem leiða til aukinna útgjalda skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu dómsmálaráðuneytisins.“

Svo mörg voru þau orð. Lausatök ríkissstjórnarinnar í ríkisfjármálum birtast víða.

Sjá frumvarp dómsmálaráðherra og umsögn fjármálaráðuneytisins í heild sinni hér.

Monday, December 3, 2007

Þingflokkur Samfylkingarinnar á endurmenntunarnámskeið?

Í umræðum um þingsköp á Alþingi í síðustu viku lét Helgi Hjörvar, einn af uppáhaldsþingmönnum mínum á meðal Samfylkingarfólks, þau orð falla að „sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki Alþingi Íslendinga“.

Nú er margt til í þessum orðum hins háttvirta þingmanns en fróðlegt er að skoða hans eigin þingflokk og sjá hverjir þurfa að fara á námskeið hjá endurmenntun. Tekið skal fram að aðeins fór fram handahófskennd leit á vef Alþingis og ljóst af þeim stutta tíma sem hún tók að vafalítið væri hægt að finna fjölmörg dæmi til viðbótar af mörgum ræðum þingmanna Samfylkingarinnar sem oft hafa farið mikinn og dvalið lengi í ræðustól Alþingis, a.m.k. á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Einn þeirra þurfti meira að segja að gera hlé á máli sínu til að skreppa á salernið!

Hér að neðan má finna yfirlit yfir núverandi þingmenn Samfylkingarinnar og fáein dæmi um ræður þeirra sem hafa tekið lengri tíma en 15 mínútur í flutningi:

Helgi Hjörvar - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ágúst Ólafur Ágústsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Árni Páll Árnason - Virðist vera eini þingmaður Samfylkingarinnar sem nú er á þingi sem hefur hvergi í samfelldri ræðu talað lengur en í 15 mínútur, enda settist þingmaðurinn ungi aðeins inn á Alþingi sl. vor.

Ásta R. Jóhannesdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Björgvin G. Sigurðsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Einar Már Sigurðarson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ellert B. Schram - sjá t.d. ræðu hans hér.

Guðbjartur Hannesson - sjá t.d. ræðu hans hér. Umræðuferillinn er hér.

Gunnar Svavarsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Jóhanna Sigurðardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Karl V. Matthíasson - sjá t.d. ræðu hans hér. Framhaldið er hér.

Katrín Júlíusdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér og hér.

Kristján L. Möller - sjá t.d. ræðu hans hér.

Lúðvík Bergvinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér. Umræðuferillinn er hér.

Þórunn Sveinbjarnardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Össur Skarphéðinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Af þessu má sjá að 17 af 18 þingmönnum Samfylkingarinnar þurfa klárlega að skrá sig á námskeið hjá endurmenntun ef marka má orð Helga Hjörvars. Skyldi ekki vera hægt að fá hópafslátt?

Thursday, November 29, 2007

Ágreiningurinn kraumar undir niðri – hvenær brýst hann fram?

Á undanförnum misserum hefur mátt greina togstreitu á milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Ástæðan er brotthvarf varnarliðsins og það óvissuástand sem skapaðist í kjölfar snöggra umskipta sem af því hlutust.

Í ræðu sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, flutti um öryggis- og varnarmál í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 18. janúar sl. lét hún þessi orð m.a. falla:

„Ísland er nú herlaust land, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld. Sannast sagna hefur reynslan á þeim mánuðum sem liðnir eru frá brotthvarfi bandaríkjahers styrkt mig í þeirri trú að við eigum að stefna að því að svo verði áfram á friðartímum. Framfarir í varnartækni og aukin aðkoma að eigin varnarmálum gera okkur kleift að tryggja varnir landsins án þess að hér sé staðsett herlið að staðaldri. Ég vil leggja áherslu á að það eru engin áform um að setja á fót íslenskan her, enda engin ástæða til. Slíkt samræmist ekki að mínu mati grunngildum íslensku þjóðarinnar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að íslenskar mæður og feður gætu staðið frammi fyrir því að senda syni sína eða dætur í stríð. Vörnum landsins má sinna með öðrum úrræðum en innlendum vígbúnaði.

En með þessu er þó ekki sagt að við eigum að leiða það hjá okkur að móta okkar eigin öryggis- og varnarstefnu – öðru nær. Ríki sem tryggja ekki öryggi þegnanna, órofin landamæri, auðlindir og samgönguleiðir með fullnægjandi hætti eiga það á hættu að stofna sjálfstæði sínu í voða. Við Íslendingar metum sjálfstæði okkar og fullveldi mikils. Sagan geymir mýmörg dæmi um ill örlög varnarlausra þjóða og við megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðfrelsi okkar.“

Ræða Valgerðar er mjög áhugaverð en hana má nálgast í heild sinni hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi utanríkisráðherra hefur haldið áfram á sömu braut og Valgerður markaði. Í ræðu um utanríkismál sem ráðherra flutti á Alþingi þann 8. nóvember sl. sagði hún m.a.:

„Við skulum líta á varnir sem eðlilegan þátt í sjálfstæði þjóðarinnar og frumskyldu stjórnvalda. Útgjöldum ber að halda í lágmarki og munum að Ísland mun aldrei gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar harðar varnir, við herjum ekki á neinn heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi.“

Með öðrum orðum, utanríkisráðherrann núverandi hefur ekki boðað neina stefnubreytingu í þessum efnum frá tíð forvera síns, enda segir mér svo hugur að mikill meirihluti þjóðarinnar sé þeim sammála í þessum efnum. Lögð er áhersla á að hefðbundnar varnir séu eitt og borgaraleg löggæsluverkefni annað.

En skyldi dómsmálaráðherrann vera sammála þessu viðhorfi?

Þeir sem fylgst hafa með störfum og lífi Björns Bjarnarsonar vita að maðurinn er hamhleypa til verka, duglegur og fylginn sér. Hann er mikill kvikmyndaáhugamaður og fræg er aðdáun hans á hasarmyndahetjunni Bruce Willis, ekki síst þegar hann fer mikinn í Die Hard myndunum. Björn hefur sem kunnugt er varpað fram hugmyndum um hvort ekki væri rétt að koma á fót hér á landi liði sem gæti tekið að sér að verja mikilvæga staði í landinu. Ýmsir hafa blandað saman áhuga Björns á hasarmyndahetjunni og áhuganum á „þjóðvarðliðinu“ með gamansömum hætti og gert að því góðlátlegt grín.

En þeir sem hafa lesið ræður Björns Bjarnasonar að undanförnu hafa tekið eftir því að Björn gengur sífellt lengra í átt til þess að blanda saman og tala um óljós skil hernaðar og borgaralegrar löggæslu. Þessu hafa verið gerð ágæt skil hér.

Telja má fullvíst að ef Björn Bjarnason vill hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd muni það vekja upp ólgu innan ríkisstjórnarninnar og væntanlega harkaleg viðbrögð meðal almennings. Auðvitað veltur það á því hversu langt Björn vill ganga en ef hann færi til að mynda að velta upp hugmyndum um vopnað varalið eða þjóðvarðlið má bóka það að utanríkisráðherrann og samstarfsflokkurinn myndu bregðast ókvæða við.

Hvað myndi Geir H. Haarde forsætisráðherra gera í þeirri stöðu? Geir er ekki maður mikilla verka eða átaka eins og kom e.t.v. hvað best í ljós þegar hann lagði ekki í að gera Björn brottrækan úr ráðherrastóli sl. vor enda þótt honum hefði með því tekist að fella brott úr ráðherraliði sínu síðasta öfluga fylgismann Davíðsarmsins. Geir taldi sig greinilega ekki hafa nógu sterka stöðu þá innan Sjálfstæðisflokksins til að losa sig við Björn og reita hina fylkinguna til reiði.

Spurningin er sú núna hvort Geir muni nota tækifærið þegar og ef það gefst með framlagningu óvinsæls máls af hálfu dómsmálaráðherra og sýna afstöðu sína með kulda og stuðningsleysi gagnvart samflokksráðherranum. Með öðrum orðum, skilja dómsmálaráðherra eftir einan í vandræðunum og leyfa samflokksmönnum úr sínum eigin armi, fylgismönnum samstarfsflokksins og stjórnarandstöðunni að hrekja ráðherrann úr stjórnmálum. Það myndi óneitanlega henta vel, ekki satt?

Wednesday, November 28, 2007

Sjónvarp Valhöll góðan daginn

Það er ekki einleikið hversu höll fréttastofa Sjónvarps er orðin undir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta birtist manni nær daglega um þessar mundir.

Ef hlaupið er yfir nokkur dæmi má m.a. benda á dæmalausa umfjöllun um mál sem tengist sölu fasteigna á fyrrum svæði varnarliðsins. Eins og fram hefur komið ítrekað hjá fréttastofu Stöðvar 2, t.d. hér og hér, eru það sjálfstæðismenn sem eru allt í kringum þetta mál og má þar nefna þrjá bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, fjármálaráðherrann sjálfan, bróður hans, aðstoðarmann hans (sem jafnframt er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ) og í bloggheimum hafa fleiri menn sem venslaðir eru háttsettum og valdamiklum Sjálfstæðismönnum og –konum verið tengdir við málið.

Ríkissjónvarpið þegir nánast þunnu hljóði um málið á meðan. Það er helst að Kastljósið hafi sýnt því örlítinn áhuga í eitt skipti en þó engan veginn á við margt sem sá ágæti þáttur hefur fjallað um og tekið föstum tökum.

Dæmi um umfjöllun fréttastofu Sjónvarps má finna hér. Þetta er hreinlega dásamleg frétt þar sem Bogi Ágústsson (allir vita jú hvar hann er í pólitík) skiptir yfir á beina útsendingu frá varnarliðssvæðinu þar sem Svavar Halldórsson (fyrrverandi formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði) tekur viðtal við Árna Sigfússon, fyrir framan kirkjuna eða safnaðarheimilið á staðnum. Uppsetningin er með eindæmum. Það er ekki laust að engilsaxneski frasinn „How low can you get?“ komi upp í hugann við að horfa á þessa dásemd.

Það er ekki að furða þótt Össur iðnaðarráðherra hafi ítrekað kallað Sjónvarpið bláskjá enda á ráðherrann ekkert inni hjá miðlinum sem sendir bláleitu birtuna frá sér á flest heimili landsmanna á hverju kvöldi. Það má m.a. sjá af umfjöllun Sjónvarpsins í frétt um einn af pistlum ráðherrans þar sem stóri fréttapunkturinn nær því vart að vera efni pistilsins eins og ætla hefði mátt, svo mikil athygli er vakin á því hvenær sólarhringsins pistillinn er birtur.

Spyrja má hvort næsta skref sé ekki nánara samstarf ríkisfjölmiðilsins við þann fjölmiðil sem er eins konar ríki í ríkinu. Ríkisútvarpið og Morgunblaðið áttu í samstarfi fyrir síðustu kosningar um gerð og birtingu skoðanakannana og nú er Morgunblaðið farið að standa í útsendingu sjónvarpsefnis á Netinu. Í því ljósi er hér spurt, hvenær mun hin eiginlega sameining fara fram?

Monday, November 26, 2007

Daufur forsætisráðherra

Það er ekki einleikið hversu hæglátur Geir H. Haarde forsætisráðherra er. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að vera gætinn og ana ekki út í einhverja vitleysu. Forsætisráðherra ætti hins vegar að vera búinn að átta sig á því að þótt flas sé sjaldnast til fagnaðar þá geta það verið dýrkeypt mistök að bíða of lengi með ákvarðanatöku. Segja má til að mynda að það litla sem ráðherrann hafi aðhafst til þessa í hinu svokallaða REI máli hafi verið tómt klúður enda eru afleiðingar þess að sitja nánast með hendur í skauti í málinu þær að sjálfstæðismenn hrökkluðust hraktir og smáðir úr meirihlutanum í Reykjavíkurborg eftir fárra mánaða setu þar í kjölfar 12 ára eyðimerkurgöngu í minnihlutanum. Það gæti vel farið svo að önnur 12 ár í minnihluta séu framundan, svo rækilega hafa sjálfstæðismenn klofnað og skaðað sig. Villi er orðinn „lame duck“ og yngri mennirnir svo rúnir trausti að enginn sexmenninganna kemur til greina sem leiðtogi flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum.

Sé litið til landsmálanna er fátt sem kemur í hugann ef horft er til afreka forsætisráðherrans það sem af er kjörtímabili nýrrar ríkisstjórnar. Helsta afrekið er það að hafa látið Þorgerði Katrínu varaformann plata sig í samstarf með Samfylkingunni og þar með ekki aðeins endurlífgað Ingibjörgu Sólrúnu við pólitískt séð heldur einnig málað Sjálfstæðisflokkinn svo rækilega út í horn að það er nánast sama hvaða ágreiningsmál kemur upp í samstarfinu, Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki staðið harður á sínu nema hann sé til í að fara í minnihluta. Kom þetta glögglega í ljós í gær og í dag þegar viðbrögð sjálfstæðismanna við hörðu næturbloggi Össurar iðnaðarráðherra fólust aðeins í pirringslegum athugasemdum Sigurðar Kára og Geirs forsætisráðherra. Athugasemdir þeirra voru með öllu marklausar og raunar því líkastar að meinlaus chihuahua hvolpur væri að reyna að gelta í áttina að fullorðnum Sankti Bernharðshundi; hávaði sem enginn tekur mark á en margir sem verða vitni að geta haft góða skemmtun af.

Nei, ef Geir H. Haarde ætlar að leiða flokk sinn í gegnum næstu alþingiskosningar verður hann að taka á sig rögg og reyna að vera skjótari til viðbragða en steingervingur. Annars á hann á hættu að taka á sig endanlega mynd þess hægláta varðveisluforms.

Wednesday, November 21, 2007

Gerast nú fleiri vindhanar en Össur Skarphéðinsson – Þú líka Jóhanna?

Á Alþingi okkar Íslendinga fóru í gær fram umræður um húsnæðismál að undirlagi Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Til svara var félagsmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir. Sjáum nú hvað Jóhanna lét frá sér fara í gær:

„Hæstv. forseti. Á einhverjum mestu þenslutímum íslensks samfélags sameinuðust stjórnvöld og bankarnir um að stórauka framboð á lánsfé til húsnæðiskaupa heimilanna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefur hækkað um 70–80% frá haustinu 2004, og frá árinu 2000 um 140%. Margir telja að þetta hafi verið alvarleg hagstjórnarmistök sem leiddu til gífurlegra verðhækkana á fasteignum og hárra vaxta.“

Sjáum svo hvað hin sama Jóhanna sagði fyrir þremur árum úr þessum sama ræðustóli Alþingis, þegar verið var að ræða breytingar á útlánum Íbúðalánasjóðs:

„Mér finnst það hafa verið staðfest í nefndinni sem ég hélt fram við 1. umr., að úr því sem komið væri út af innkomu bankanna inn á markaðinn mundi það litlu breyta þótt hámarksfjárhæðin á lánum hjá Íbúðalánasjóði yrði eitthvað hærri en áform ráðherrans eru, að það mundi ekki hafa þensluhvetjandi áhrif eða neikvæð efnahagsleg áhrif að fara þarna örlítið hærra upp. Sú hækkun hverfur raunverulega í skuggann af þeim víðtæku lánamöguleikum sem bankarnir hafa nú sett fram þar sem eru 80% lán með engu þaki og 100% lán með hámarksfjárhæð 25 millj. kr.

Það hefur raunverulega verið staðfest af fulltrúum þeirra sem komu á fund nefndarinnar, bæði Hagfræðistofnunar og Seðlabanka, að þetta mundi litlu breyta fyrir þensluna. Eins og ég hef bent á mun fólk bara leita í auknum mæli til bankanna og endurfjármagna lán sín þar og flytja frá Íbúðalánasjóði.

Eftir umfjöllun í nefndinni er ég alveg sannfærð um að stjórnvöld eiga, a.m.k. um hríð, að búa þannig að Íbúðalánasjóði að hann geti veitt bönkunum nauðsynlegt aðhald. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að ekki séu nægjanlega traustar stoðir undir fjármögnun lánanna hjá bönkunum, a.m.k. ekki hjá öllum lánastofnunum, og tilgangurinn sé fyrst og fremst að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum eins og ég hef sagt.

Í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd kom fram að vísað var til álits sænsks ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæfir sig á sviði fjármálaráðgjafar og hefur verið að vinna fyrir Íbúðalánasjóð að undanförnu. Þetta fyrirtæki er vel þekkt á norræna markaðnum og þar kom fram að þeir telja að bankar og sparisjóðir þurfi að vera með 0,6–1,2% hærri vexti en Íbúðalánasjóður ef allt er tekið með í reikninginn.

Mín skoðun er sem sagt sú — var við 1. umr. og ég hef enn herst í þeirri skoðun — að það þurfi að hækka hámarksfjárhæðina. Vegna þeirra miklu uppgreiðslna sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir, hreinlega af því að hann er ekki samkeppnisfær, þarf líka að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána þannig að fólk sé ekki neytt til þess að flytja allan lánapakkann með sér frá Íbúðalánasjóði yfir í bankana einungis til þess að geta skuldbreytt mjög óhagstæðu bankaláni upp á kannski 1–3 millj.“

Er þetta sama manneskja?

Tökum annað dæmi um gjörbreyttan tón hjá ráðherrum Samfylkingarinnar. Þetta dæmi er að vísu þekktari stærð þegar að því kemur að skipta snögglega um skoðun.

Ráðherrann er Össur Skarphéðinsson, leiksviðið er ræðustóll Alþingis, dagurinn er 21. nóvember 2007, tímasetningin er 13:59. Á ósköpin má horfa hér:

„...[Þ]á var það sú dæmalaust heimskulega ákvörðun hjá Framsóknarflokknum að knýja í gegnum síðustu ríkisstjórn 90% lánin. Og það var ekki bara ákvörðunin sjálf, það var líka aðferðin við að gera það. Man þingheimur eftir því hvernig það var gert? Því var líst yfir af hálfu félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins að þetta yrði gert eftir tvö ár. Þannig var reidd upp svipa og bankarnir voru reknir af stað í samkeppnina. Þannig að það var fyrst og fremst þessi ákvörðun og síðan aðferðafræðin sjálf sem var jafn heimskuleg og ákvörðunin sem að leiddi til þess að þessi staða er komin upp.“

Hverfum svo aftur um þrjú ár. Sami maður, sama leiksvið:

„Herra forseti. Það er oft þannig að veruleikinn yfirtekur drauma mannsins og á síðasta vori var Framsóknarflokkurinn með ansi glæsilegar tillögur um breytingar á húsnæðislánum. Síðan hefur það gerst að veruleikinn hefur farið fram úr þeim og í dag veita bankarnir 100% lán þannig að 90% lána Framsóknar er ekki lengur þörf. Hins vegar þarf að samþykkja sérstök lög vegna þróunar á markaði til að skjóta styrkari stoðum undir Íbúðalánasjóð. Við í Samfylkingunni teljum að hann hafi, a.m.k. enn um sinn, nokkuð mikilvægu hlutverki að gegna. Við teljum nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður haldi bönkunum við efnið þannig að þeir bjóði áfram þessi ríflegri kjör en Íbúðalánasjóður gerir. Þess vegna samþykkjum við þetta frumvarp og tökum sérstaklega undir með yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra um hækkun á hámarksláni. Sú lagabreyting sem hér er verið að gera skýtur stoðum undir Íbúðalánasjóð og sér til þess að hann getur starfað enn um sinn.

Um leið og ég lýsi stuðningi við þetta vil ég lýsa því yfir að ég tel ástæðu til að óska Sjálfstæðisflokknum alveg sérstaklega til hamingju. Hann hefur með því að samþykkja þetta í reynd verið að auka ríkisumsvif. Hann hefur skipt um skoðun í þessu máli og er nú að skjóta stoðum undir Íbúðalánasjóðinn sem er algjörlega í andstöðu við það sem hann hefur áður sagt og gert. Ég segi auðvitað eins og jafnan þegar menn sjá ljósið: Guð láti gott á vita í þessum efnum.“

Eru menn svo hissa á því að lítið mark sé tekið á orðum Samfylkingarmanna?

Tuesday, November 20, 2007

Spilling, spilling!

Þessar ásakanir verða vafalítið það sem heyrast mun í fjölmiðlum næstu daga þegar fjallað verður um sölu fasteigna á gamla varnasvæðinu. Um er að ræða sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., sem er félag í eigu íslenska ríkisins og sem fjármálaráðuneytið fer með eignarhlut í, á eignum á fyrrum varnarsvæðinu. Kaupendur eru Glitnir, Klasi, Sparisjóður Keflavíkur, Fasteignafélagið Þrek og Teigur Fasteignir. Kaupverðið er sagt vera 14 milljarðar króna.

Ekki þarf að taka fram að miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi.

Gagnrýnt var á Alþingi í dag að með því söluferli sem hefði verið viðhaft í þessu tilfelli hefði verið brotið gegn lögum þar sem eignirnar voru seldar án aðkomu Ríkiskaupa og án auglýsingar á EES-svæðinu.

Ekki skal fullyrt hér um hvað er hæft í þessum ásökunum. Hins vegar er sjálfsagt að benda á að í samningi um þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á þróunarsvæði við Keflavíkurflugvöll, sem gerður er á milli fjármálaráðuneytis annars vegar og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. hins vegar, er kveðið á um í grein 7.2. að: „Verksali [Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.] skal ávallt við sölu, leigu eða aðra ráðstöfun á eignum ríkisins gæta þess að mismuna ekki aðilum og skal í því skyni tryggja að umræddar eignir verði auglýstar opinberlega til sölu eða leigu og val á viðsemjendum byggist ekki á öðrum sjónarmiðum en mati á hagstæðasta tilboði.“

Vegna þess hve hlutlausir, sjálfstæðir og öflugir íslenskir fjölmiðlar eru má að sjálfsögðu búast við því að rækilega verið farið ofan í alla þætti sem varða sölu á umræddum fasteignum, þ.m.t. söluferlið, tengsl milli seljenda og kaupenda o.s.frv. Þannig má ætla að í 24 stundum í fyrramálið verði á myndrænan hátt farið ofan í tengsl persóna og leikenda í málinu, líkt og áður hefur verið gert í málum af svipuðum toga. Þar verður vafalítið dregið fram að einn af eigendum Klasa og stjórnarformaður félagsins er Þorgils Óttar Mathiesen, bróðir Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Ennfremur, eins og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að einn stjórnarmanna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. er Árni Sigfússon, bæjarstjóri sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, en með honum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar situr m.a. Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fyrrgreinds Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Einnig munu fjölmiðlar varpa ljósi á umtalsverð viðskipti Glitnis og Reykjanesbæjar á hinum ýmsu sviðum, sem og hagsmuni Sparisjóðs Keflavíkur í málinu og þeirra sem þar eru í forsvari. Þá verður sérlega fróðlegt að sjá hverjir eru mennirnir á bak við fasteignafélögin Þrek og Teig.

Enginn vafi verður heldur á því að fjölmiðlamenn munu í umfjöllun sinni um málið hafa í huga 5. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands en þar segir m.a. að blaðamaður skuli „fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns.“ Þetta er náttúrulega borðliggjandi og víst að hagsmunir lesenda liggja klárlega í því að allt verði uppi á borðum í þessu máli, enda um umtalsverðar eignir að ræða sem áður voru í eigu almennings.

Allt mun verða upplýst og ekkert dregið undan.

Eða hvað?

Monday, November 19, 2007

Íhaldslygin

Þetta þykir mér bæði skondið og talsvert til í þessu líka.

„Þekkir þú nokkurn eins sakleysislegan á svip og Sjálfstæðismann sem veit að hann er að ljúga?“

Guðný, langamma hans Stebba á þessi fleygu orð.

Sunday, November 18, 2007

Helgi og stefnubreytingin


Helgi heitir maður og er Hjörvar. Helgi þessi er alþingismaður og getur stundum verið ágætlega beittur í ræðustól Alþingis. Þess á milli glittir augljóslega í hugsjónaleysið og tækifærismennskuna eins og sást á sumarþinginu í júní sl. þegar þingmaðurinn lýsti því yfir á hinni háttvirtu löggjafarsamkomu að nú væri komin til sögunnar ný ríkisstjórn og ný stjórnarandstaða, og því ættu yfirlýsingar fyrri stjórnarandstöðu ekki lengur við, og var í því tilfellinu að tala um afturköllun vatnalaga. Eins og flesta rekur minni til þvaðraði þáverandi stjórnarandstaða í fleiri sólarhringa um vatnalögin þegar þau voru til umfjöllunar á Alþingi á sínum tíma og var afturköllun laganna í þá tíð mikið grundvallaratriði hjá Samfylkingarmönnum. En það eru greinilega skoðanir fleiri en iðnaðarráðherrans sem snúast í hringi eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs.

Helgi þessi ræðst fram á ritvöllinn í blaðinu 24 stundir (er ekki hægt að finna þjálla nafn?) í gær. Þar fer hann mikinn við að reyna að rökstyðja það að straumhvörf hafi orðið varðandi áform um virkjanir og stóriðju eftir að Samfylkingin kom til sögunnar við ríkisstjórnarborðið.

Fyrsta dæmið sem hann rekur er reyndar sérlega skondið en þar nefnir hann að forysta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hafi tryggt lýðræðislega kosningu um mögulega stækkun álversins í Straumsvík. Vissulega er þetta rétt. Samfylkingin í Hafnarfirði tók þá ákvörðun að kjósa skyldi, en ekki um stækkunina sjálfa heldur reyndu Lúðvík Geirsson og félagar að flækja hlutina með því að láta atkvæðagreiðsluna fara fram um deiliskipulag svæðisins. Lúðvík var auðvitað hlynntur stækkuninni eins og kom fram í viðtali sem María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður hjá Sjónvarpinu tók við hann og birtist 24. janúar sl. Enda fór Lúðvík strax að lokinni íbúakosningu í það að bjóða forsvarsmönnum Alcan alls kyns möguleika á stækkun álversins.

Það næsta sem Helgi tiltekur er að „[í] stjórnarsáttmálanum er ákveðið að hætta leyfisveitingum þar til áætlun um þau landsvæði sem friða skal er tilbúin“. Þarna hefði Helgi átt að lesa stjórnarsáttmálann betur því í honum stendur: „Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.“ Ef farið er svo nánar ofan í þessi mál og frumvarp Jóns Sigurðssonar fyrrverandi iðnaðarráðherra, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er lesið þá stendur í því: „Þar til verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV hefur tekið gildi er ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á kostum sem ekki falla undir 2. mgr. þessa ákvæðis nema fyrir liggi rannsóknir og mat sambærilegt því sem liggur til grundvallar niðurstöðum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að fengnu samþykki Alþingis.“ Í 2. málsgreinninni kemur fram að aðeins sé heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta, þ.e. hjá þeim kostum sem óumdeildastir eru. Þetta er nú öll stefnubreytingin því þar sér hver maður hvert textahöfundar stjórnarsáttmálans hafa sótt vit sitt.

Helgi tiltekur jafnframt að stefnubreyting hafi nýlega komið fram hjá umhverfisráðherra um að mengandi stóriðja fái ekki fríar losunarheimildir í framtíðinni og að Íslandi muni ekki leita eftir sérstökum ókeypis heimildum fyrir þau. Sú mengandi stóriðja sem frekast hefur verið amast við hér á landi eru auðvitað álverin. Staðreyndin er hins vegar sú að álverksmiðjur þurfa hvergi í heiminum að greiða fyrir losunarkvóta, og eru þau t.a.m. sérstaklega undanskilin slíkum greiðslum hjá draumaríki kratanna, Evrópusambandinu. Það skyti því óneitanlega skökku við ef Ísland tæki upp á því, fyrst þjóða heims, að innheimta slíkar greiðslur fyrir losun, ekki síst þegar haft er í huga að ál hefur hingað til þótt fremur umhverfisvænn málmur og af þeim sökum fallið undir almenna losun hjá flestum þjóðum heims, án gjaldskyldu. Af þessari sömu ástæðu rukkuðu íslensk stjórnvöld ekki um greiðslur fyrir úthlutun losunarkvóta til álvera, sem fram fór nú nýverið af hálfu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra Samfylkingarinnar.

Svo má auðvitað bæta því við að umhverfisráðherra virðist í þessu máli eins og öðrum vera nokkuð einangruð. Þannig má nefna að í setningarræðu síðasta umhverfisþings sagði umhverfisráðherrann að ekki yrði leitað eftir undanþágu frá losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland. Forsætisráðherra hefur hins vegar síðar sagt að ákvörðun liggi ekki fyrir í því máli. Líklegast hefur Þórunn því í ræðu sinni verið að viðra sína persónulegu skoðun eins og hún taldi best fallna til vinsælda á umhverfisþingi, líkt og hefur gerst í svo mörgum málum öðrum hjá Samfylkingarráðherrunum.

Þriðja dæmið sem Helgi tekur fyrir er að Landsvirkjun hafi nýlega lýst því yfir að hún seldi ekki orku til nýrra álvera á Suðvesturlandi. Það er vissulega rétt hjá Helga að Landsvirkun lýsti þessu yfir en það kom skýrt fram við það tilefni að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar væri tekin á grundvelli viðskiptalegra sjónarmiða en ekki pólitískra, og hefur það verið staðfest af bæði forsætisráðherra og iðnaðarráðherra. Landsvirkjun ætlar einfaldlega að hafa þá skynsömu stefnu að leiðarljósi að láta á það reyna, nú þegar fjöldi áhugasamra kaupenda hefur komið fram, hvort ekki sé unnt að fá enn hærra verð fyrir orkuna og um leið að byggja upp fjölbreyttari kaupandaflóru. Þessu lýsti framsóknarmaðurinn sem situr í stóli stjórnarformanns Landsvirkjunar ágætlega í blaðaviðtölum þegar ákvörðunin lá fyrir. Það er af þessari sömu ástæðu sem fyrri ríkisstjórn fór í það verk eftir atvinnuleysisríkisstjórn krata og íhalds árið 1995 að laða hingað til lands stóra orkukaupendur sem veittu fjölda manns atvinnu, sem og að selja ríkisbankana. Með því var verið að byggja fleiri stoðir undir einhæft atvinnulíf þjóðarinnar og prísa sig sjálfsagt flestir sælir núna að við höfum fleiri stoðir en sjávarútveginn einan á tímum samdráttar í þorskveiðum.

Fjórða og síðasta atriði sem Helgi nefnir er að Samfylkingin sé nú komin í meirihlutasamstarf í Reykjavík og að spennandi verði að fylgjast með þeim áherslubreytingum sem séu að verða í orkumálum hjá borginni. Ekki veit ég af hverju Helgi nefnir þetta sérstaklega enda um augljóst sjálfsmark að ræða þegar haft er í huga að fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa um árabil stutt dyggilega á bak við uppbyggingu virkjana á vegum Orkuveitunnar og sölu orku til m.a. álvera. Meira að segja núverandi formaður Samfylkingarinnar lét talsvert til sín taka á vettvangi borgarinnar hvað þessi mál varðar þegar hún sat í stóli borgarstjóra. Flestir muna eftir stuðningi hennar við uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar og myndin sem birtist á forsíðu Samfylkingarblaðsins í Norðausturkjördæmi, og sem má sjá efst í þessari grein, segir meira en mörg orð um „Fagra Ísland“ Samfylkingarinnar og hversu erfitt getur verið fyrir suma að koma í framkvæmd fallegum orðum sem fest hafa verið á blað.

Helgi gleymir svo auðvitað fjölmörgum atriðum í grein sinni, þ.á.m. stuðning Samfylkingarinnar við uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík, stuðning iðnaðarráðherrans við uppbyggingu álþynnuverksmiðju við Akureyri, stuðning iðnaðarráðherrans við uppbyggingu álverksmiðja í Indónesíu og svo mætti áfram telja.

Er Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra krata og stóriðjumógúll Íslands, ekki örugglega ennþá einn helsti ráðgjafi Samfylkingarinnar í öllum málum sem þarfnast vitrænnar skoðunar?

Saturday, November 17, 2007

Egill Helgason og hið sögulega samhengi

Egill Helgason, fjölmiðlamaður með meiru, sem heldur m.a. úti hinum stórgóða sjónvarpsþætti Silfur Egils á Ríkissjónvarpinu ritar í dag pistil á vefsíðu sína. Í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Sögulegt samhengi“ fjallar Egill um hækkun húsnæðisverðs á liðnum árum og bendir á að orsök þess sé kosningaloforð Framsóknarflokksins frá því fyrir Alþingiskosningarnar 2003 um 90% húsnæðislán. Klikkir Egill út með því í lokin að ekki þýði fyrir Framsóknarflokkinn að neita ábyrgð sinni í málinu og vísar þar í ágætan pistil á vefdagbók Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns.

Þessi pistill Egils vekur nokkra undrun. Ekki er hægt að mótmæla því að Framsóknarflokkurinn kom fram með loforð 2003 um 90% húsnæðislán og reyndar hafa forkólfar flokksins ekki reynt að firra sig ábyrgð á því loforði mér vitanlega. Þvert á móti hafa þeir haldið málinu á lofti eins og fleiri góðum málum sem flokkurinn stóð fyrir, eins og stofnun fæðingarorlofssjóðs, sölu ríkisbankanna, skattalækkunum, uppbyggingu velferðarkerfisins, stórfelldri fjölgun starfa o.s.frv. Það sem undrunina vekur er það að Egill skuli ekki hafa fyrir því að setja hlutina í sitt rétta og eðlilega samhengi.

Staðreyndin er sú að húsnæðismarkaður á Íslandi einkenndist um áratugaskeið af miklum skorti á fjármögnun. Þess vegna þurfti atbeina ríkisins mestan hluta 20. aldarinnar til að tryggja fjármagn til kaupa á íbúðarhúsnæði, m.a. vegna þess að viðskiptabankarnir voru tregir til að veita lán nema með verulega háum vöxtum.

Árið 2003, þegar framsóknarmenn kynntu stefnumið sitt um 90% lán, var því mjög vel tekið. Hámark húsnæðisláns var þá 8 milljónir vegna notaðs húsnæðis og 9 milljónir vegna nýs húsnæðis. Lánin voru fjármögnuð með sölu húsbréfa á markaði og voru stundum afföll af þeim en stundum fékkst fyrir þau yfirverð. Hámarkslánshlutfall var 70% vegna fyrstu íbúðar og 65% ef kaupandinn var að fjárfesta í húsnæði í annað sinn eða oftar. Lánin sjálf voru svo fyrir löngu orðin of lág til að duga sem heildarlausn við húsnæðiskaup þannig að flestir brúuðu bilið með annars konar lánum, s.s. með lánum frá lífeyrissjóðum, með yfirdrætti, eða bankalánum með hárri vaxtaprósentu. Mjög tekjulágt fólk gat þó fengið viðbótarlán sem námu allt að 90% af verðmæti íbúðar.

Þegar ljóst var að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks myndi starfa áfram að afloknum kosningum var kveðið á um 90% húsnæðislán í stjórnarsáttmála flokkanna. Bar þá svo við að bankarnir fóru hver af öðrum að vara við þessum tillögum og töldu þær efnahagslegt glapræði því 90% lánin myndu kollvarpa stöðugleikanum í þjóðfélaginu. Rétt er að taka fram að ekki stóð til að fara með lánin í 90% fyrr en undir lok kjörtímabilsins, ef efnahagsaðstæður hefðu leyft það, eins og allir geta kynnt sér með lestri frétta frá þessum tíma. Fyrsta skrefið í breytingum hjá Íbúðalánasjóði var enda mjög í anda þess en í júlí 2004 voru hámarkslán sjóðsins hækkuð úr 9 m.kr. í 9,7 m.kr. og vextir lækkaðir úr 5,1% í 4,8%. Lánshlutfallið var óbreytt eða 70%. Húsnæðiskaupendur þurftu því þarna sem fyrr að leita leiða til að brúa bilið sem upp á vantaði með lánum frá bönkunum, lífeyrissjóðum o.s.frv.

Um mánuði síðar hefja bankarnir svo innreið sína á fasteignamarkaðinn. Veislan var hafin og nú var ekki hugsað um stöðugleikann í þjóðfélaginu. Boðin voru fyrst í stað 80% lán sem fóru skömmu síðar upp í 100%. Vextirnir lækkuðu til muna, ekkert þak var á lánsfjárhæðinni og eina skilyrðið sem sett var varðandi endurfjármögnun var að lán Íbúðalánasjóðs væru greidd upp. Afleiðingin var auðvitað sú að almenningur flykktist í bankana til að endurfjármagna lánin sín, greiða upp yfirdráttarheimildina í leiðinni og mögulega endurbæta húsnæði eða kaupa bíl, flatskjá og fleiri hluti í leiðinni. Augljóst var að koma átti Íbúðalánasjóði af húsnæðislánamarkaði með góðu eða illu. Undir þetta allt saman kynti svo sjálfur Seðlabanki Íslands með því að lækka bindiskyldu bankanna um svipað leyti. Í þessu tilfelli stóð ríkisvaldið eftir eitt og óstutt varðandi það að varðveita stöðugleikann. Minnisstæð eru ummæli bankastjóra þáverandi KB banka þess efnis að bankinn gæti boðið svona góð vaxtakjör á húsnæðislánum vegna umsvifa sinna erlendis og möguleika á góðri fjármögnun þaðan (gaman væri að eiga þessi ummæli orðrétt).

Hver voru sjónarmið stjórnarandstöðunnar í málinu? Þann 2. desember árið 2004, þremur og hálfum mánuði eftir að bankarnir komu inn á markaðinn, heimilaði Alþingi Íbúðalánasjóði að hækka lánshlutfall sitt með setningu nýrra laga. Upphaflegar tillögur Framsóknarflokksins höfðu sem fyrr segir gert ráð fyrir að innleiða hækkun lánanna í áföngum á kjörtímabilinu en í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið höfðu á húsnæðismarkaði var ákveðið að þær kæmu fyrr til framkvæmda enda ekki talið að breytingarnar hefðu nein veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast höfðu við innkomu bankanna og þeirra gylliboða sem uppi voru. Félagsmálanefnd Alþingis var m.a. einhuga í afstöðu sinni til málsins en í henni sátu þá þau Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Örlygsson, Pétur H. Blöndal, Birkir Jón Jónsson og Katrín Júlíusdóttir. Rétt er þó að taka fram að stjórnarandstaðan hafði lýst fyrirvörum við fjárhæð hámarkslána og ákvæði um að tekið verði upp heimild til að leggja á uppgreiðsluálag til þess að verja Íbúðalánasjóð fyrir hrinu uppgreiðslna. Við aðra umræðu um málið á Alþingi sló félagsmálaráðherra á gagnrýni stjórnarandstöðunnar þegar hann tilkynnti að ákveðið hefði verið að nýta heimild í reglugerð til þess að hækka hámarkslán þannig að þau yrðu þegar í stað 14,9 milljónir króna en ekki 13 milljónir eins og ætlunin var. Þessi fjárhæð miðaðist við 90% af 16,6 milljónum króna, en það var það meðalverð sem 110-130 fermetra íbúðir á höfuðborgarsvæðinu höfðu selst á næstu mánuði á undan. Með þessu kom ráðherra til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar og lýstu fjölmargir þáverandi stjórnarandstæðingar yfir ánægju sinni með stöðu mála, m.a. Jóhanna Sigurðardóttir núverandi félagsmálaráðherra, Össur Skarphéðinsson núverandi iðnaðarráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon núverandi og þáverandi formaður Vinstri grænna. Greiddu allir þingmenn atkvæði með lögunum í heild þegar að atkvæðagreiðslu kom á Alþingi.

Feril málsins í heild á Alþingi Íslendinga má finna hér. Einnig má finna ágætan pistil um málið hér.

Að lokum má því spyrja sig að því hver það var sem kollvarpaði stöðugleikanum og eins hvert sögulegt samhengi hlutanna sé í raun og veru?

Friday, November 16, 2007

Dagur íslenskrar tungu

Er ekki við hæfi að opna vefdagbók á degi íslenskrar tungu? Varla færi maður a.m.k. að blogga á þessum drottins degi.

Skrefið er stigið. Hér er ætlunin að skrifa um allt á milli himins og jarðar. Hversu lengi ég endist verður svo bara að koma í ljós.