Wednesday, January 9, 2008

„Hæfniskröfur“ sem gerðar eru til manna sem ráðnir eru í opinberar stöður

Uppfylla þarf einhver af eftirtöldum skilyrðum:

  • Vera flokksbundinn í Sjálfstæðisflokknum
  • Vera flokksbundinn í Samfylkingunni
  • Vera sonur Davíðs Oddssonar fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra
  • Vera vinur eða skyldmenni Davíðs Oddssonar fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra
  • Hafa verið aðstoðarmaður Björns Bjarnasonar, vinar Davíðs Oddssonar fyrrverandi forsætisráðherra og núverandi seðlabankastjóra
  • Hafa gegnt veigamiklum nefndarstörfum varamanns í nefndum fyrir Sjálfstæðisflokkinn
  • Sitja í dómnefnd Bókmenntaverðlauna Tómasar Guðmundssonar
  • Hafa víðtæka reynslu af félagstörfum innan Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar eða Alþýðuflokki, Alþýðubandalagi eða Kvennalista (flokkanna sem mynduðu Samfylkinguna)
  • Vera vinur Össurar Skarphéðinssonar, núverandi iðnaðarráðherra og þess sem réði nýjan Orkumálastjóra
  • Vera vinur aðstoðarmanns Össurar Skarphéðinssonar, núverandi iðnaðarráðherra og þess sem réði nýjan Orkumálastjóra
  • Vera gamall vopnabróðir úr Alþýðubandalaginu
  • Vera fyrrverandi formaður Alþýðubandalags Reykjavíkur, samtíða Össuri Skarphéðinssyni, núverandi iðnaðarráðherra og þeim hinum sama sem réði nýjan Orkumálastjóra, í þeim mæta félagsskap
  • Vera fyrrverandi stjórnarmaður í útgáfufélagi Þjóðviljans, á sama tíma og Össur Skarphéðinsson, núverandi iðnaðarráðherra og sá sem réði nýjan Orkumálastjóra, var ritstjóri blaðsins
  • Vera fyrrverandi oddviti Röskvu, í hópi með lítt pólitíska fólkinu Þórunni Sveinbjarnardóttur núverandi umhverfisráðherra, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur alþingismanni Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóra og Skúla Helgasyni framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar
  • Vera fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og talsmaður Samfylkingarinnar, með kjörmenntun í starf forstöðumanns Litla Hrauns
  • Mæta ýmsum hæfniskröfum sem gerðar eru eftirá af ráðherrum Samfylkingar eða Sjálfstæðisflokks og sem ekki er krafist í opinberum auglýsingum um viðkomandi starf

Tuesday, January 8, 2008

Faglegasti ráðherra ríkisstjórnarinnar?

Grímseyjarferja, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, ráðning héraðsdómara, upptaka evru hjá Kaupþingi. Hvað næst? Hæfni, ákvarðanir og málefnaleg afstaða fjármálaráðherra í hverju málinu á fætur öðru slá nánast allt annað út.

Össur reynir að skyggja á nýjustu ráðningamál setts dómsmálaráðherra og tekst reyndar bærilega að draga úr þeim skaða sem fjármálaráðherra er að valda sjálfum sér.

Formaður Samfylkingarinnar og annar oddviti ríkisstjórnarinnar hleypur úr landi meðan úrslitavika er í kjarasamningsviðræðum. Helsti málsvari lítilmagnans í flokknum, heilög Jóhanna, þegir þunnu hljóði. Þögn hennar er skerandi. Hvað skyldi verkalýðsarmur Samfylkingarinnar segja við því?

Á meðan veröldin snýst sinnir forsætisráðherra innri íhugun, eða hvað svo sem hann er að gera.

Friday, December 21, 2007

Jón og séra Jón

Nú hefur Þorsteinn Davíðsson, einkasonur Davíðs Oddssonar, fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, sem situr nú í stóli Seðlabankastjóra, verið ráðinn sem héraðsdómari við Héraðsdóm Norðurlands eystra og Héraðsdóm Austurlands.

Þorsteinn gegndi sem kunnugt er starfi aðstoðarmanns Björns Bjarnasonar núverandi dómsmálaráðherra og einkavinar Davíðs Oddssonar um langt skeið. Af þeim sökum var Árni Matthiesen, dýralæknir og fjármálaráðherra, sem á sinn pólitíska frama að þakka Davíð Oddssyni, settur dómsmálaráðherra í málinu og skipaði hann Þorstein til starfsins.

Umsækjendur um starfið voru fimm. Nefnd sem lögum samkvæmt er falið að kanna hæfi umsækjenda fyrir dómsmálaráðherra raðaði umsækjendum í flokka eftir hæfi. Flokkarnir eru óhæfur, hæfur, vel hæfur og mjög vel hæfur. Ragnheiður Jónsdóttir og Þorsteinn Davíðsson voru af nefndinni álitin hæf en þeir Guðmundur Kristjánsson, hæstaréttarlögmaður, Halldór Björnsson, aðstoðarmaður hæstaréttardómara og Pétur Dam Leifsson, lektor voru allir álitnir mjög vel hæfir, þ.e. settir tveimur flokkum ofar í hæfi en þau Ragnheiður og Þorsteinn.

Dýralæknirinn sem var að enda við að skila af sér þenslufjárlögum aldarinnar var sem sagt ósammála nefndinni.

Við þetta tilefni rifjast upp aðrar ráðningar á skyldmennum Davíðs til dómarastarfa, ellefu sendiherraskipanir sama manns á stuttum tíma, salan á Landsbanka Íslands til manna sem voru ekki einu sinni hæstbjóðendur, og önnur spillingarmál sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram með. Þau nýjustu eru sukkferjan sem sigla á til og frá Grímsey svo og stríðsmangið í Keflavík þar sem sjálfstæðismenn sitja allt í kringum borðið og gott ef ekki ofan á og undir því líka.

Tuesday, December 18, 2007

Stríðið er hafið

Nú er Inga Jóna að hefna sín fyrir aðför Davíðs að sér í borginni fyrir fáum árum. Útspili hennar þar sem hún etur saklausum eiginmanninum, sem bæ ðe vei ber titil forsætisráðherra, er augljóslega beint gegn Davíð, Styrmi, Kjartani, litlu dátunum sex í borginni og manninum sem ekki má nefna á nafn þótt allir viti við hvern átt er.

Stríðið er hafið. Valdataflið í Valhöll er byrjað. Hvernig bregst Seðlabankastjóri við í næsta leik?

Tuesday, December 4, 2007

Fjármálaráðuneytið hirtir dómsmálaráðherra

Man einhver eftir viðlíka umsögn frá fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um nokkurt lagafrumvarp ráðherra? Um er að ræða umsögn við frumvarp Björns Bjarnasonar dómsmálaráðherra um meðferð sakamála.

„Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2008 er ekki gert ráð fyrir auknum fjárveitingum til að standa straum af rekstrarkostnaði sem hlýst af þessu frumvarpi.

Vakin er athygli á því að samþykkt ríkisstjórnarinnar um meðferð mála við 2. umræðu fjárlagafrumvarps gerir ráð fyrir að með frumvörpum sem leiða til aukinna útgjalda skuli fylgja tillögur um hvernig dregið verði úr öðrum útgjöldum á móti til að útgjaldarammi raskist ekki. Tillögur um slíkar mótvægisráðstafanir vegna þessa frumvarps liggja ekki fyrir af hálfu dómsmálaráðuneytisins.“

Svo mörg voru þau orð. Lausatök ríkissstjórnarinnar í ríkisfjármálum birtast víða.

Sjá frumvarp dómsmálaráðherra og umsögn fjármálaráðuneytisins í heild sinni hér.

Monday, December 3, 2007

Þingflokkur Samfylkingarinnar á endurmenntunarnámskeið?

Í umræðum um þingsköp á Alþingi í síðustu viku lét Helgi Hjörvar, einn af uppáhaldsþingmönnum mínum á meðal Samfylkingarfólks, þau orð falla að „sá sem ekki getur sagt skoðun sína á máli á 15 mínútum á að vera á endurmenntunarnámskeiði en ekki Alþingi Íslendinga“.

Nú er margt til í þessum orðum hins háttvirta þingmanns en fróðlegt er að skoða hans eigin þingflokk og sjá hverjir þurfa að fara á námskeið hjá endurmenntun. Tekið skal fram að aðeins fór fram handahófskennd leit á vef Alþingis og ljóst af þeim stutta tíma sem hún tók að vafalítið væri hægt að finna fjölmörg dæmi til viðbótar af mörgum ræðum þingmanna Samfylkingarinnar sem oft hafa farið mikinn og dvalið lengi í ræðustól Alþingis, a.m.k. á meðan þeir voru í stjórnarandstöðu. Einn þeirra þurfti meira að segja að gera hlé á máli sínu til að skreppa á salernið!

Hér að neðan má finna yfirlit yfir núverandi þingmenn Samfylkingarinnar og fáein dæmi um ræður þeirra sem hafa tekið lengri tíma en 15 mínútur í flutningi:

Helgi Hjörvar - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ágúst Ólafur Ágústsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Árni Páll Árnason - Virðist vera eini þingmaður Samfylkingarinnar sem nú er á þingi sem hefur hvergi í samfelldri ræðu talað lengur en í 15 mínútur, enda settist þingmaðurinn ungi aðeins inn á Alþingi sl. vor.

Ásta R. Jóhannesdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Björgvin G. Sigurðsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Einar Már Sigurðarson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Ellert B. Schram - sjá t.d. ræðu hans hér.

Guðbjartur Hannesson - sjá t.d. ræðu hans hér. Umræðuferillinn er hér.

Gunnar Svavarsson - sjá t.d. ræðu hans hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér.

Jóhanna Sigurðardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Karl V. Matthíasson - sjá t.d. ræðu hans hér. Framhaldið er hér.

Katrín Júlíusdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér og hér og hér.

Kristján L. Möller - sjá t.d. ræðu hans hér.

Lúðvík Bergvinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér. Umræðuferillinn er hér.

Þórunn Sveinbjarnardóttir - sjá t.d. ræðu hennar hér.

Össur Skarphéðinsson - sjá t.d. ræðu hans hér og hér.

Af þessu má sjá að 17 af 18 þingmönnum Samfylkingarinnar þurfa klárlega að skrá sig á námskeið hjá endurmenntun ef marka má orð Helga Hjörvars. Skyldi ekki vera hægt að fá hópafslátt?

Thursday, November 29, 2007

Ágreiningurinn kraumar undir niðri – hvenær brýst hann fram?

Á undanförnum misserum hefur mátt greina togstreitu á milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Ástæðan er brotthvarf varnarliðsins og það óvissuástand sem skapaðist í kjölfar snöggra umskipta sem af því hlutust.

Í ræðu sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, flutti um öryggis- og varnarmál í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 18. janúar sl. lét hún þessi orð m.a. falla:

„Ísland er nú herlaust land, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld. Sannast sagna hefur reynslan á þeim mánuðum sem liðnir eru frá brotthvarfi bandaríkjahers styrkt mig í þeirri trú að við eigum að stefna að því að svo verði áfram á friðartímum. Framfarir í varnartækni og aukin aðkoma að eigin varnarmálum gera okkur kleift að tryggja varnir landsins án þess að hér sé staðsett herlið að staðaldri. Ég vil leggja áherslu á að það eru engin áform um að setja á fót íslenskan her, enda engin ástæða til. Slíkt samræmist ekki að mínu mati grunngildum íslensku þjóðarinnar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að íslenskar mæður og feður gætu staðið frammi fyrir því að senda syni sína eða dætur í stríð. Vörnum landsins má sinna með öðrum úrræðum en innlendum vígbúnaði.

En með þessu er þó ekki sagt að við eigum að leiða það hjá okkur að móta okkar eigin öryggis- og varnarstefnu – öðru nær. Ríki sem tryggja ekki öryggi þegnanna, órofin landamæri, auðlindir og samgönguleiðir með fullnægjandi hætti eiga það á hættu að stofna sjálfstæði sínu í voða. Við Íslendingar metum sjálfstæði okkar og fullveldi mikils. Sagan geymir mýmörg dæmi um ill örlög varnarlausra þjóða og við megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðfrelsi okkar.“

Ræða Valgerðar er mjög áhugaverð en hana má nálgast í heild sinni hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi utanríkisráðherra hefur haldið áfram á sömu braut og Valgerður markaði. Í ræðu um utanríkismál sem ráðherra flutti á Alþingi þann 8. nóvember sl. sagði hún m.a.:

„Við skulum líta á varnir sem eðlilegan þátt í sjálfstæði þjóðarinnar og frumskyldu stjórnvalda. Útgjöldum ber að halda í lágmarki og munum að Ísland mun aldrei gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar harðar varnir, við herjum ekki á neinn heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi.“

Með öðrum orðum, utanríkisráðherrann núverandi hefur ekki boðað neina stefnubreytingu í þessum efnum frá tíð forvera síns, enda segir mér svo hugur að mikill meirihluti þjóðarinnar sé þeim sammála í þessum efnum. Lögð er áhersla á að hefðbundnar varnir séu eitt og borgaraleg löggæsluverkefni annað.

En skyldi dómsmálaráðherrann vera sammála þessu viðhorfi?

Þeir sem fylgst hafa með störfum og lífi Björns Bjarnarsonar vita að maðurinn er hamhleypa til verka, duglegur og fylginn sér. Hann er mikill kvikmyndaáhugamaður og fræg er aðdáun hans á hasarmyndahetjunni Bruce Willis, ekki síst þegar hann fer mikinn í Die Hard myndunum. Björn hefur sem kunnugt er varpað fram hugmyndum um hvort ekki væri rétt að koma á fót hér á landi liði sem gæti tekið að sér að verja mikilvæga staði í landinu. Ýmsir hafa blandað saman áhuga Björns á hasarmyndahetjunni og áhuganum á „þjóðvarðliðinu“ með gamansömum hætti og gert að því góðlátlegt grín.

En þeir sem hafa lesið ræður Björns Bjarnasonar að undanförnu hafa tekið eftir því að Björn gengur sífellt lengra í átt til þess að blanda saman og tala um óljós skil hernaðar og borgaralegrar löggæslu. Þessu hafa verið gerð ágæt skil hér.

Telja má fullvíst að ef Björn Bjarnason vill hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd muni það vekja upp ólgu innan ríkisstjórnarninnar og væntanlega harkaleg viðbrögð meðal almennings. Auðvitað veltur það á því hversu langt Björn vill ganga en ef hann færi til að mynda að velta upp hugmyndum um vopnað varalið eða þjóðvarðlið má bóka það að utanríkisráðherrann og samstarfsflokkurinn myndu bregðast ókvæða við.

Hvað myndi Geir H. Haarde forsætisráðherra gera í þeirri stöðu? Geir er ekki maður mikilla verka eða átaka eins og kom e.t.v. hvað best í ljós þegar hann lagði ekki í að gera Björn brottrækan úr ráðherrastóli sl. vor enda þótt honum hefði með því tekist að fella brott úr ráðherraliði sínu síðasta öfluga fylgismann Davíðsarmsins. Geir taldi sig greinilega ekki hafa nógu sterka stöðu þá innan Sjálfstæðisflokksins til að losa sig við Björn og reita hina fylkinguna til reiði.

Spurningin er sú núna hvort Geir muni nota tækifærið þegar og ef það gefst með framlagningu óvinsæls máls af hálfu dómsmálaráðherra og sýna afstöðu sína með kulda og stuðningsleysi gagnvart samflokksráðherranum. Með öðrum orðum, skilja dómsmálaráðherra eftir einan í vandræðunum og leyfa samflokksmönnum úr sínum eigin armi, fylgismönnum samstarfsflokksins og stjórnarandstöðunni að hrekja ráðherrann úr stjórnmálum. Það myndi óneitanlega henta vel, ekki satt?