Thursday, November 29, 2007

Ágreiningurinn kraumar undir niðri – hvenær brýst hann fram?

Á undanförnum misserum hefur mátt greina togstreitu á milli utanríkisráðuneytisins og dómsmálaráðuneytisins. Ástæðan er brotthvarf varnarliðsins og það óvissuástand sem skapaðist í kjölfar snöggra umskipta sem af því hlutust.

Í ræðu sem Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, flutti um öryggis- og varnarmál í hátíðarsal Háskóla Íslands þann 18. janúar sl. lét hún þessi orð m.a. falla:

„Ísland er nú herlaust land, í fyrsta skipti í meira en hálfa öld. Sannast sagna hefur reynslan á þeim mánuðum sem liðnir eru frá brotthvarfi bandaríkjahers styrkt mig í þeirri trú að við eigum að stefna að því að svo verði áfram á friðartímum. Framfarir í varnartækni og aukin aðkoma að eigin varnarmálum gera okkur kleift að tryggja varnir landsins án þess að hér sé staðsett herlið að staðaldri. Ég vil leggja áherslu á að það eru engin áform um að setja á fót íslenskan her, enda engin ástæða til. Slíkt samræmist ekki að mínu mati grunngildum íslensku þjóðarinnar. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að íslenskar mæður og feður gætu staðið frammi fyrir því að senda syni sína eða dætur í stríð. Vörnum landsins má sinna með öðrum úrræðum en innlendum vígbúnaði.

En með þessu er þó ekki sagt að við eigum að leiða það hjá okkur að móta okkar eigin öryggis- og varnarstefnu – öðru nær. Ríki sem tryggja ekki öryggi þegnanna, órofin landamæri, auðlindir og samgönguleiðir með fullnægjandi hætti eiga það á hættu að stofna sjálfstæði sínu í voða. Við Íslendingar metum sjálfstæði okkar og fullveldi mikils. Sagan geymir mýmörg dæmi um ill örlög varnarlausra þjóða og við megum aldrei sofna á verðinum í þeirri viðleitni að tryggja þjóðfrelsi okkar.“

Ræða Valgerðar er mjög áhugaverð en hana má nálgast í heild sinni hér.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir núverandi utanríkisráðherra hefur haldið áfram á sömu braut og Valgerður markaði. Í ræðu um utanríkismál sem ráðherra flutti á Alþingi þann 8. nóvember sl. sagði hún m.a.:

„Við skulum líta á varnir sem eðlilegan þátt í sjálfstæði þjóðarinnar og frumskyldu stjórnvalda. Útgjöldum ber að halda í lágmarki og munum að Ísland mun aldrei gegna hlutverki í sambandi við svokallaðar harðar varnir, við herjum ekki á neinn heldur lítum eftir lofthelgi okkar og landhelgi.“

Með öðrum orðum, utanríkisráðherrann núverandi hefur ekki boðað neina stefnubreytingu í þessum efnum frá tíð forvera síns, enda segir mér svo hugur að mikill meirihluti þjóðarinnar sé þeim sammála í þessum efnum. Lögð er áhersla á að hefðbundnar varnir séu eitt og borgaraleg löggæsluverkefni annað.

En skyldi dómsmálaráðherrann vera sammála þessu viðhorfi?

Þeir sem fylgst hafa með störfum og lífi Björns Bjarnarsonar vita að maðurinn er hamhleypa til verka, duglegur og fylginn sér. Hann er mikill kvikmyndaáhugamaður og fræg er aðdáun hans á hasarmyndahetjunni Bruce Willis, ekki síst þegar hann fer mikinn í Die Hard myndunum. Björn hefur sem kunnugt er varpað fram hugmyndum um hvort ekki væri rétt að koma á fót hér á landi liði sem gæti tekið að sér að verja mikilvæga staði í landinu. Ýmsir hafa blandað saman áhuga Björns á hasarmyndahetjunni og áhuganum á „þjóðvarðliðinu“ með gamansömum hætti og gert að því góðlátlegt grín.

En þeir sem hafa lesið ræður Björns Bjarnasonar að undanförnu hafa tekið eftir því að Björn gengur sífellt lengra í átt til þess að blanda saman og tala um óljós skil hernaðar og borgaralegrar löggæslu. Þessu hafa verið gerð ágæt skil hér.

Telja má fullvíst að ef Björn Bjarnason vill hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd muni það vekja upp ólgu innan ríkisstjórnarninnar og væntanlega harkaleg viðbrögð meðal almennings. Auðvitað veltur það á því hversu langt Björn vill ganga en ef hann færi til að mynda að velta upp hugmyndum um vopnað varalið eða þjóðvarðlið má bóka það að utanríkisráðherrann og samstarfsflokkurinn myndu bregðast ókvæða við.

Hvað myndi Geir H. Haarde forsætisráðherra gera í þeirri stöðu? Geir er ekki maður mikilla verka eða átaka eins og kom e.t.v. hvað best í ljós þegar hann lagði ekki í að gera Björn brottrækan úr ráðherrastóli sl. vor enda þótt honum hefði með því tekist að fella brott úr ráðherraliði sínu síðasta öfluga fylgismann Davíðsarmsins. Geir taldi sig greinilega ekki hafa nógu sterka stöðu þá innan Sjálfstæðisflokksins til að losa sig við Björn og reita hina fylkinguna til reiði.

Spurningin er sú núna hvort Geir muni nota tækifærið þegar og ef það gefst með framlagningu óvinsæls máls af hálfu dómsmálaráðherra og sýna afstöðu sína með kulda og stuðningsleysi gagnvart samflokksráðherranum. Með öðrum orðum, skilja dómsmálaráðherra eftir einan í vandræðunum og leyfa samflokksmönnum úr sínum eigin armi, fylgismönnum samstarfsflokksins og stjórnarandstöðunni að hrekja ráðherrann úr stjórnmálum. Það myndi óneitanlega henta vel, ekki satt?

No comments: