Monday, November 26, 2007

Daufur forsætisráðherra

Það er ekki einleikið hversu hæglátur Geir H. Haarde forsætisráðherra er. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera að vera gætinn og ana ekki út í einhverja vitleysu. Forsætisráðherra ætti hins vegar að vera búinn að átta sig á því að þótt flas sé sjaldnast til fagnaðar þá geta það verið dýrkeypt mistök að bíða of lengi með ákvarðanatöku. Segja má til að mynda að það litla sem ráðherrann hafi aðhafst til þessa í hinu svokallaða REI máli hafi verið tómt klúður enda eru afleiðingar þess að sitja nánast með hendur í skauti í málinu þær að sjálfstæðismenn hrökkluðust hraktir og smáðir úr meirihlutanum í Reykjavíkurborg eftir fárra mánaða setu þar í kjölfar 12 ára eyðimerkurgöngu í minnihlutanum. Það gæti vel farið svo að önnur 12 ár í minnihluta séu framundan, svo rækilega hafa sjálfstæðismenn klofnað og skaðað sig. Villi er orðinn „lame duck“ og yngri mennirnir svo rúnir trausti að enginn sexmenninganna kemur til greina sem leiðtogi flokksins í næstu borgarstjórnarkosningum.

Sé litið til landsmálanna er fátt sem kemur í hugann ef horft er til afreka forsætisráðherrans það sem af er kjörtímabili nýrrar ríkisstjórnar. Helsta afrekið er það að hafa látið Þorgerði Katrínu varaformann plata sig í samstarf með Samfylkingunni og þar með ekki aðeins endurlífgað Ingibjörgu Sólrúnu við pólitískt séð heldur einnig málað Sjálfstæðisflokkinn svo rækilega út í horn að það er nánast sama hvaða ágreiningsmál kemur upp í samstarfinu, Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki staðið harður á sínu nema hann sé til í að fara í minnihluta. Kom þetta glögglega í ljós í gær og í dag þegar viðbrögð sjálfstæðismanna við hörðu næturbloggi Össurar iðnaðarráðherra fólust aðeins í pirringslegum athugasemdum Sigurðar Kára og Geirs forsætisráðherra. Athugasemdir þeirra voru með öllu marklausar og raunar því líkastar að meinlaus chihuahua hvolpur væri að reyna að gelta í áttina að fullorðnum Sankti Bernharðshundi; hávaði sem enginn tekur mark á en margir sem verða vitni að geta haft góða skemmtun af.

Nei, ef Geir H. Haarde ætlar að leiða flokk sinn í gegnum næstu alþingiskosningar verður hann að taka á sig rögg og reyna að vera skjótari til viðbragða en steingervingur. Annars á hann á hættu að taka á sig endanlega mynd þess hægláta varðveisluforms.

No comments: