Saturday, November 17, 2007

Egill Helgason og hið sögulega samhengi

Egill Helgason, fjölmiðlamaður með meiru, sem heldur m.a. úti hinum stórgóða sjónvarpsþætti Silfur Egils á Ríkissjónvarpinu ritar í dag pistil á vefsíðu sína. Í pistlinum, sem ber yfirskriftina „Sögulegt samhengi“ fjallar Egill um hækkun húsnæðisverðs á liðnum árum og bendir á að orsök þess sé kosningaloforð Framsóknarflokksins frá því fyrir Alþingiskosningarnar 2003 um 90% húsnæðislán. Klikkir Egill út með því í lokin að ekki þýði fyrir Framsóknarflokkinn að neita ábyrgð sinni í málinu og vísar þar í ágætan pistil á vefdagbók Birkis Jóns Jónssonar alþingismanns.

Þessi pistill Egils vekur nokkra undrun. Ekki er hægt að mótmæla því að Framsóknarflokkurinn kom fram með loforð 2003 um 90% húsnæðislán og reyndar hafa forkólfar flokksins ekki reynt að firra sig ábyrgð á því loforði mér vitanlega. Þvert á móti hafa þeir haldið málinu á lofti eins og fleiri góðum málum sem flokkurinn stóð fyrir, eins og stofnun fæðingarorlofssjóðs, sölu ríkisbankanna, skattalækkunum, uppbyggingu velferðarkerfisins, stórfelldri fjölgun starfa o.s.frv. Það sem undrunina vekur er það að Egill skuli ekki hafa fyrir því að setja hlutina í sitt rétta og eðlilega samhengi.

Staðreyndin er sú að húsnæðismarkaður á Íslandi einkenndist um áratugaskeið af miklum skorti á fjármögnun. Þess vegna þurfti atbeina ríkisins mestan hluta 20. aldarinnar til að tryggja fjármagn til kaupa á íbúðarhúsnæði, m.a. vegna þess að viðskiptabankarnir voru tregir til að veita lán nema með verulega háum vöxtum.

Árið 2003, þegar framsóknarmenn kynntu stefnumið sitt um 90% lán, var því mjög vel tekið. Hámark húsnæðisláns var þá 8 milljónir vegna notaðs húsnæðis og 9 milljónir vegna nýs húsnæðis. Lánin voru fjármögnuð með sölu húsbréfa á markaði og voru stundum afföll af þeim en stundum fékkst fyrir þau yfirverð. Hámarkslánshlutfall var 70% vegna fyrstu íbúðar og 65% ef kaupandinn var að fjárfesta í húsnæði í annað sinn eða oftar. Lánin sjálf voru svo fyrir löngu orðin of lág til að duga sem heildarlausn við húsnæðiskaup þannig að flestir brúuðu bilið með annars konar lánum, s.s. með lánum frá lífeyrissjóðum, með yfirdrætti, eða bankalánum með hárri vaxtaprósentu. Mjög tekjulágt fólk gat þó fengið viðbótarlán sem námu allt að 90% af verðmæti íbúðar.

Þegar ljóst var að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks myndi starfa áfram að afloknum kosningum var kveðið á um 90% húsnæðislán í stjórnarsáttmála flokkanna. Bar þá svo við að bankarnir fóru hver af öðrum að vara við þessum tillögum og töldu þær efnahagslegt glapræði því 90% lánin myndu kollvarpa stöðugleikanum í þjóðfélaginu. Rétt er að taka fram að ekki stóð til að fara með lánin í 90% fyrr en undir lok kjörtímabilsins, ef efnahagsaðstæður hefðu leyft það, eins og allir geta kynnt sér með lestri frétta frá þessum tíma. Fyrsta skrefið í breytingum hjá Íbúðalánasjóði var enda mjög í anda þess en í júlí 2004 voru hámarkslán sjóðsins hækkuð úr 9 m.kr. í 9,7 m.kr. og vextir lækkaðir úr 5,1% í 4,8%. Lánshlutfallið var óbreytt eða 70%. Húsnæðiskaupendur þurftu því þarna sem fyrr að leita leiða til að brúa bilið sem upp á vantaði með lánum frá bönkunum, lífeyrissjóðum o.s.frv.

Um mánuði síðar hefja bankarnir svo innreið sína á fasteignamarkaðinn. Veislan var hafin og nú var ekki hugsað um stöðugleikann í þjóðfélaginu. Boðin voru fyrst í stað 80% lán sem fóru skömmu síðar upp í 100%. Vextirnir lækkuðu til muna, ekkert þak var á lánsfjárhæðinni og eina skilyrðið sem sett var varðandi endurfjármögnun var að lán Íbúðalánasjóðs væru greidd upp. Afleiðingin var auðvitað sú að almenningur flykktist í bankana til að endurfjármagna lánin sín, greiða upp yfirdráttarheimildina í leiðinni og mögulega endurbæta húsnæði eða kaupa bíl, flatskjá og fleiri hluti í leiðinni. Augljóst var að koma átti Íbúðalánasjóði af húsnæðislánamarkaði með góðu eða illu. Undir þetta allt saman kynti svo sjálfur Seðlabanki Íslands með því að lækka bindiskyldu bankanna um svipað leyti. Í þessu tilfelli stóð ríkisvaldið eftir eitt og óstutt varðandi það að varðveita stöðugleikann. Minnisstæð eru ummæli bankastjóra þáverandi KB banka þess efnis að bankinn gæti boðið svona góð vaxtakjör á húsnæðislánum vegna umsvifa sinna erlendis og möguleika á góðri fjármögnun þaðan (gaman væri að eiga þessi ummæli orðrétt).

Hver voru sjónarmið stjórnarandstöðunnar í málinu? Þann 2. desember árið 2004, þremur og hálfum mánuði eftir að bankarnir komu inn á markaðinn, heimilaði Alþingi Íbúðalánasjóði að hækka lánshlutfall sitt með setningu nýrra laga. Upphaflegar tillögur Framsóknarflokksins höfðu sem fyrr segir gert ráð fyrir að innleiða hækkun lánanna í áföngum á kjörtímabilinu en í ljósi þeirra miklu breytinga sem orðið höfðu á húsnæðismarkaði var ákveðið að þær kæmu fyrr til framkvæmda enda ekki talið að breytingarnar hefðu nein veruleg áhrif á fasteignamarkaðinn í ljósi þeirra aðstæðna sem skapast höfðu við innkomu bankanna og þeirra gylliboða sem uppi voru. Félagsmálanefnd Alþingis var m.a. einhuga í afstöðu sinni til málsins en í henni sátu þá þau Siv Friðleifsdóttir, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Gunnar Örlygsson, Pétur H. Blöndal, Birkir Jón Jónsson og Katrín Júlíusdóttir. Rétt er þó að taka fram að stjórnarandstaðan hafði lýst fyrirvörum við fjárhæð hámarkslána og ákvæði um að tekið verði upp heimild til að leggja á uppgreiðsluálag til þess að verja Íbúðalánasjóð fyrir hrinu uppgreiðslna. Við aðra umræðu um málið á Alþingi sló félagsmálaráðherra á gagnrýni stjórnarandstöðunnar þegar hann tilkynnti að ákveðið hefði verið að nýta heimild í reglugerð til þess að hækka hámarkslán þannig að þau yrðu þegar í stað 14,9 milljónir króna en ekki 13 milljónir eins og ætlunin var. Þessi fjárhæð miðaðist við 90% af 16,6 milljónum króna, en það var það meðalverð sem 110-130 fermetra íbúðir á höfuðborgarsvæðinu höfðu selst á næstu mánuði á undan. Með þessu kom ráðherra til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar og lýstu fjölmargir þáverandi stjórnarandstæðingar yfir ánægju sinni með stöðu mála, m.a. Jóhanna Sigurðardóttir núverandi félagsmálaráðherra, Össur Skarphéðinsson núverandi iðnaðarráðherra, og Steingrímur J. Sigfússon núverandi og þáverandi formaður Vinstri grænna. Greiddu allir þingmenn atkvæði með lögunum í heild þegar að atkvæðagreiðslu kom á Alþingi.

Feril málsins í heild á Alþingi Íslendinga má finna hér. Einnig má finna ágætan pistil um málið hér.

Að lokum má því spyrja sig að því hver það var sem kollvarpaði stöðugleikanum og eins hvert sögulegt samhengi hlutanna sé í raun og veru?

No comments: