Wednesday, November 21, 2007

Gerast nú fleiri vindhanar en Össur Skarphéðinsson – Þú líka Jóhanna?

Á Alþingi okkar Íslendinga fóru í gær fram umræður um húsnæðismál að undirlagi Katrínar Jakobsdóttur, varaformanns Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs. Til svara var félagsmálaráðherrann Jóhanna Sigurðardóttir. Sjáum nú hvað Jóhanna lét frá sér fara í gær:

„Hæstv. forseti. Á einhverjum mestu þenslutímum íslensks samfélags sameinuðust stjórnvöld og bankarnir um að stórauka framboð á lánsfé til húsnæðiskaupa heimilanna með þeim afleiðingum að fasteignaverð hefur hækkað um 70–80% frá haustinu 2004, og frá árinu 2000 um 140%. Margir telja að þetta hafi verið alvarleg hagstjórnarmistök sem leiddu til gífurlegra verðhækkana á fasteignum og hárra vaxta.“

Sjáum svo hvað hin sama Jóhanna sagði fyrir þremur árum úr þessum sama ræðustóli Alþingis, þegar verið var að ræða breytingar á útlánum Íbúðalánasjóðs:

„Mér finnst það hafa verið staðfest í nefndinni sem ég hélt fram við 1. umr., að úr því sem komið væri út af innkomu bankanna inn á markaðinn mundi það litlu breyta þótt hámarksfjárhæðin á lánum hjá Íbúðalánasjóði yrði eitthvað hærri en áform ráðherrans eru, að það mundi ekki hafa þensluhvetjandi áhrif eða neikvæð efnahagsleg áhrif að fara þarna örlítið hærra upp. Sú hækkun hverfur raunverulega í skuggann af þeim víðtæku lánamöguleikum sem bankarnir hafa nú sett fram þar sem eru 80% lán með engu þaki og 100% lán með hámarksfjárhæð 25 millj. kr.

Það hefur raunverulega verið staðfest af fulltrúum þeirra sem komu á fund nefndarinnar, bæði Hagfræðistofnunar og Seðlabanka, að þetta mundi litlu breyta fyrir þensluna. Eins og ég hef bent á mun fólk bara leita í auknum mæli til bankanna og endurfjármagna lán sín þar og flytja frá Íbúðalánasjóði.

Eftir umfjöllun í nefndinni er ég alveg sannfærð um að stjórnvöld eiga, a.m.k. um hríð, að búa þannig að Íbúðalánasjóði að hann geti veitt bönkunum nauðsynlegt aðhald. Það er full ástæða til að hafa áhyggjur af því að ekki séu nægjanlega traustar stoðir undir fjármögnun lánanna hjá bönkunum, a.m.k. ekki hjá öllum lánastofnunum, og tilgangurinn sé fyrst og fremst að ýta Íbúðalánasjóði út af markaðnum eins og ég hef sagt.

Í umfjöllun okkar í félagsmálanefnd kom fram að vísað var til álits sænsks ráðgjafarfyrirtækis sem sérhæfir sig á sviði fjármálaráðgjafar og hefur verið að vinna fyrir Íbúðalánasjóð að undanförnu. Þetta fyrirtæki er vel þekkt á norræna markaðnum og þar kom fram að þeir telja að bankar og sparisjóðir þurfi að vera með 0,6–1,2% hærri vexti en Íbúðalánasjóður ef allt er tekið með í reikninginn.

Mín skoðun er sem sagt sú — var við 1. umr. og ég hef enn herst í þeirri skoðun — að það þurfi að hækka hámarksfjárhæðina. Vegna þeirra miklu uppgreiðslna sem Íbúðalánasjóður stendur frammi fyrir, hreinlega af því að hann er ekki samkeppnisfær, þarf líka að auka sveigjanleikann í veðmörkum á 1. veðrétti vegna annarra lána þannig að fólk sé ekki neytt til þess að flytja allan lánapakkann með sér frá Íbúðalánasjóði yfir í bankana einungis til þess að geta skuldbreytt mjög óhagstæðu bankaláni upp á kannski 1–3 millj.“

Er þetta sama manneskja?

Tökum annað dæmi um gjörbreyttan tón hjá ráðherrum Samfylkingarinnar. Þetta dæmi er að vísu þekktari stærð þegar að því kemur að skipta snögglega um skoðun.

Ráðherrann er Össur Skarphéðinsson, leiksviðið er ræðustóll Alþingis, dagurinn er 21. nóvember 2007, tímasetningin er 13:59. Á ósköpin má horfa hér:

„...[Þ]á var það sú dæmalaust heimskulega ákvörðun hjá Framsóknarflokknum að knýja í gegnum síðustu ríkisstjórn 90% lánin. Og það var ekki bara ákvörðunin sjálf, það var líka aðferðin við að gera það. Man þingheimur eftir því hvernig það var gert? Því var líst yfir af hálfu félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins að þetta yrði gert eftir tvö ár. Þannig var reidd upp svipa og bankarnir voru reknir af stað í samkeppnina. Þannig að það var fyrst og fremst þessi ákvörðun og síðan aðferðafræðin sjálf sem var jafn heimskuleg og ákvörðunin sem að leiddi til þess að þessi staða er komin upp.“

Hverfum svo aftur um þrjú ár. Sami maður, sama leiksvið:

„Herra forseti. Það er oft þannig að veruleikinn yfirtekur drauma mannsins og á síðasta vori var Framsóknarflokkurinn með ansi glæsilegar tillögur um breytingar á húsnæðislánum. Síðan hefur það gerst að veruleikinn hefur farið fram úr þeim og í dag veita bankarnir 100% lán þannig að 90% lána Framsóknar er ekki lengur þörf. Hins vegar þarf að samþykkja sérstök lög vegna þróunar á markaði til að skjóta styrkari stoðum undir Íbúðalánasjóð. Við í Samfylkingunni teljum að hann hafi, a.m.k. enn um sinn, nokkuð mikilvægu hlutverki að gegna. Við teljum nauðsynlegt að Íbúðalánasjóður haldi bönkunum við efnið þannig að þeir bjóði áfram þessi ríflegri kjör en Íbúðalánasjóður gerir. Þess vegna samþykkjum við þetta frumvarp og tökum sérstaklega undir með yfirlýsingu hæstv. félagsmálaráðherra um hækkun á hámarksláni. Sú lagabreyting sem hér er verið að gera skýtur stoðum undir Íbúðalánasjóð og sér til þess að hann getur starfað enn um sinn.

Um leið og ég lýsi stuðningi við þetta vil ég lýsa því yfir að ég tel ástæðu til að óska Sjálfstæðisflokknum alveg sérstaklega til hamingju. Hann hefur með því að samþykkja þetta í reynd verið að auka ríkisumsvif. Hann hefur skipt um skoðun í þessu máli og er nú að skjóta stoðum undir Íbúðalánasjóðinn sem er algjörlega í andstöðu við það sem hann hefur áður sagt og gert. Ég segi auðvitað eins og jafnan þegar menn sjá ljósið: Guð láti gott á vita í þessum efnum.“

Eru menn svo hissa á því að lítið mark sé tekið á orðum Samfylkingarmanna?

No comments: