Wednesday, November 28, 2007

Sjónvarp Valhöll góðan daginn

Það er ekki einleikið hversu höll fréttastofa Sjónvarps er orðin undir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta birtist manni nær daglega um þessar mundir.

Ef hlaupið er yfir nokkur dæmi má m.a. benda á dæmalausa umfjöllun um mál sem tengist sölu fasteigna á fyrrum svæði varnarliðsins. Eins og fram hefur komið ítrekað hjá fréttastofu Stöðvar 2, t.d. hér og hér, eru það sjálfstæðismenn sem eru allt í kringum þetta mál og má þar nefna þrjá bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ, fjármálaráðherrann sjálfan, bróður hans, aðstoðarmann hans (sem jafnframt er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ) og í bloggheimum hafa fleiri menn sem venslaðir eru háttsettum og valdamiklum Sjálfstæðismönnum og –konum verið tengdir við málið.

Ríkissjónvarpið þegir nánast þunnu hljóði um málið á meðan. Það er helst að Kastljósið hafi sýnt því örlítinn áhuga í eitt skipti en þó engan veginn á við margt sem sá ágæti þáttur hefur fjallað um og tekið föstum tökum.

Dæmi um umfjöllun fréttastofu Sjónvarps má finna hér. Þetta er hreinlega dásamleg frétt þar sem Bogi Ágústsson (allir vita jú hvar hann er í pólitík) skiptir yfir á beina útsendingu frá varnarliðssvæðinu þar sem Svavar Halldórsson (fyrrverandi formaður Stefnis, félags ungra sjálfstæðismanna í Hafnarfirði) tekur viðtal við Árna Sigfússon, fyrir framan kirkjuna eða safnaðarheimilið á staðnum. Uppsetningin er með eindæmum. Það er ekki laust að engilsaxneski frasinn „How low can you get?“ komi upp í hugann við að horfa á þessa dásemd.

Það er ekki að furða þótt Össur iðnaðarráðherra hafi ítrekað kallað Sjónvarpið bláskjá enda á ráðherrann ekkert inni hjá miðlinum sem sendir bláleitu birtuna frá sér á flest heimili landsmanna á hverju kvöldi. Það má m.a. sjá af umfjöllun Sjónvarpsins í frétt um einn af pistlum ráðherrans þar sem stóri fréttapunkturinn nær því vart að vera efni pistilsins eins og ætla hefði mátt, svo mikil athygli er vakin á því hvenær sólarhringsins pistillinn er birtur.

Spyrja má hvort næsta skref sé ekki nánara samstarf ríkisfjölmiðilsins við þann fjölmiðil sem er eins konar ríki í ríkinu. Ríkisútvarpið og Morgunblaðið áttu í samstarfi fyrir síðustu kosningar um gerð og birtingu skoðanakannana og nú er Morgunblaðið farið að standa í útsendingu sjónvarpsefnis á Netinu. Í því ljósi er hér spurt, hvenær mun hin eiginlega sameining fara fram?

No comments: