Sunday, November 18, 2007

Helgi og stefnubreytingin


Helgi heitir maður og er Hjörvar. Helgi þessi er alþingismaður og getur stundum verið ágætlega beittur í ræðustól Alþingis. Þess á milli glittir augljóslega í hugsjónaleysið og tækifærismennskuna eins og sást á sumarþinginu í júní sl. þegar þingmaðurinn lýsti því yfir á hinni háttvirtu löggjafarsamkomu að nú væri komin til sögunnar ný ríkisstjórn og ný stjórnarandstaða, og því ættu yfirlýsingar fyrri stjórnarandstöðu ekki lengur við, og var í því tilfellinu að tala um afturköllun vatnalaga. Eins og flesta rekur minni til þvaðraði þáverandi stjórnarandstaða í fleiri sólarhringa um vatnalögin þegar þau voru til umfjöllunar á Alþingi á sínum tíma og var afturköllun laganna í þá tíð mikið grundvallaratriði hjá Samfylkingarmönnum. En það eru greinilega skoðanir fleiri en iðnaðarráðherrans sem snúast í hringi eftir því úr hvaða átt vindurinn blæs.

Helgi þessi ræðst fram á ritvöllinn í blaðinu 24 stundir (er ekki hægt að finna þjálla nafn?) í gær. Þar fer hann mikinn við að reyna að rökstyðja það að straumhvörf hafi orðið varðandi áform um virkjanir og stóriðju eftir að Samfylkingin kom til sögunnar við ríkisstjórnarborðið.

Fyrsta dæmið sem hann rekur er reyndar sérlega skondið en þar nefnir hann að forysta Samfylkingarinnar í Hafnarfirði hafi tryggt lýðræðislega kosningu um mögulega stækkun álversins í Straumsvík. Vissulega er þetta rétt. Samfylkingin í Hafnarfirði tók þá ákvörðun að kjósa skyldi, en ekki um stækkunina sjálfa heldur reyndu Lúðvík Geirsson og félagar að flækja hlutina með því að láta atkvæðagreiðsluna fara fram um deiliskipulag svæðisins. Lúðvík var auðvitað hlynntur stækkuninni eins og kom fram í viðtali sem María Sigrún Hilmarsdóttir fréttamaður hjá Sjónvarpinu tók við hann og birtist 24. janúar sl. Enda fór Lúðvík strax að lokinni íbúakosningu í það að bjóða forsvarsmönnum Alcan alls kyns möguleika á stækkun álversins.

Það næsta sem Helgi tiltekur er að „[í] stjórnarsáttmálanum er ákveðið að hætta leyfisveitingum þar til áætlun um þau landsvæði sem friða skal er tilbúin“. Þarna hefði Helgi átt að lesa stjórnarsáttmálann betur því í honum stendur: „Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu. Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.“ Ef farið er svo nánar ofan í þessi mál og frumvarp Jóns Sigurðssonar fyrrverandi iðnaðarráðherra, um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, er lesið þá stendur í því: „Þar til verndar- og nýtingaráætlun samkvæmt ákvæði til bráðabirgða IV hefur tekið gildi er ekki heimilt að veita ný leyfi til rannsóknar og nýtingar á kostum sem ekki falla undir 2. mgr. þessa ákvæðis nema fyrir liggi rannsóknir og mat sambærilegt því sem liggur til grundvallar niðurstöðum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og að fengnu samþykki Alþingis.“ Í 2. málsgreinninni kemur fram að aðeins sé heimilt að veita ný rannsóknar- og nýtingarleyfi fyrir kostum í umhverfisflokki a í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og þeim kostum í umhverfisflokki b sem ekki eru gerðar sérstakar athugasemdir við vegna umhverfisverðmæta, þ.e. hjá þeim kostum sem óumdeildastir eru. Þetta er nú öll stefnubreytingin því þar sér hver maður hvert textahöfundar stjórnarsáttmálans hafa sótt vit sitt.

Helgi tiltekur jafnframt að stefnubreyting hafi nýlega komið fram hjá umhverfisráðherra um að mengandi stóriðja fái ekki fríar losunarheimildir í framtíðinni og að Íslandi muni ekki leita eftir sérstökum ókeypis heimildum fyrir þau. Sú mengandi stóriðja sem frekast hefur verið amast við hér á landi eru auðvitað álverin. Staðreyndin er hins vegar sú að álverksmiðjur þurfa hvergi í heiminum að greiða fyrir losunarkvóta, og eru þau t.a.m. sérstaklega undanskilin slíkum greiðslum hjá draumaríki kratanna, Evrópusambandinu. Það skyti því óneitanlega skökku við ef Ísland tæki upp á því, fyrst þjóða heims, að innheimta slíkar greiðslur fyrir losun, ekki síst þegar haft er í huga að ál hefur hingað til þótt fremur umhverfisvænn málmur og af þeim sökum fallið undir almenna losun hjá flestum þjóðum heims, án gjaldskyldu. Af þessari sömu ástæðu rukkuðu íslensk stjórnvöld ekki um greiðslur fyrir úthlutun losunarkvóta til álvera, sem fram fór nú nýverið af hálfu Þórunnar Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra Samfylkingarinnar.

Svo má auðvitað bæta því við að umhverfisráðherra virðist í þessu máli eins og öðrum vera nokkuð einangruð. Þannig má nefna að í setningarræðu síðasta umhverfisþings sagði umhverfisráðherrann að ekki yrði leitað eftir undanþágu frá losunarheimildum gróðurhúsalofttegunda fyrir Ísland. Forsætisráðherra hefur hins vegar síðar sagt að ákvörðun liggi ekki fyrir í því máli. Líklegast hefur Þórunn því í ræðu sinni verið að viðra sína persónulegu skoðun eins og hún taldi best fallna til vinsælda á umhverfisþingi, líkt og hefur gerst í svo mörgum málum öðrum hjá Samfylkingarráðherrunum.

Þriðja dæmið sem Helgi tekur fyrir er að Landsvirkjun hafi nýlega lýst því yfir að hún seldi ekki orku til nýrra álvera á Suðvesturlandi. Það er vissulega rétt hjá Helga að Landsvirkun lýsti þessu yfir en það kom skýrt fram við það tilefni að ákvörðun stjórnar Landsvirkjunar væri tekin á grundvelli viðskiptalegra sjónarmiða en ekki pólitískra, og hefur það verið staðfest af bæði forsætisráðherra og iðnaðarráðherra. Landsvirkjun ætlar einfaldlega að hafa þá skynsömu stefnu að leiðarljósi að láta á það reyna, nú þegar fjöldi áhugasamra kaupenda hefur komið fram, hvort ekki sé unnt að fá enn hærra verð fyrir orkuna og um leið að byggja upp fjölbreyttari kaupandaflóru. Þessu lýsti framsóknarmaðurinn sem situr í stóli stjórnarformanns Landsvirkjunar ágætlega í blaðaviðtölum þegar ákvörðunin lá fyrir. Það er af þessari sömu ástæðu sem fyrri ríkisstjórn fór í það verk eftir atvinnuleysisríkisstjórn krata og íhalds árið 1995 að laða hingað til lands stóra orkukaupendur sem veittu fjölda manns atvinnu, sem og að selja ríkisbankana. Með því var verið að byggja fleiri stoðir undir einhæft atvinnulíf þjóðarinnar og prísa sig sjálfsagt flestir sælir núna að við höfum fleiri stoðir en sjávarútveginn einan á tímum samdráttar í þorskveiðum.

Fjórða og síðasta atriði sem Helgi nefnir er að Samfylkingin sé nú komin í meirihlutasamstarf í Reykjavík og að spennandi verði að fylgjast með þeim áherslubreytingum sem séu að verða í orkumálum hjá borginni. Ekki veit ég af hverju Helgi nefnir þetta sérstaklega enda um augljóst sjálfsmark að ræða þegar haft er í huga að fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafa um árabil stutt dyggilega á bak við uppbyggingu virkjana á vegum Orkuveitunnar og sölu orku til m.a. álvera. Meira að segja núverandi formaður Samfylkingarinnar lét talsvert til sín taka á vettvangi borgarinnar hvað þessi mál varðar þegar hún sat í stóli borgarstjóra. Flestir muna eftir stuðningi hennar við uppbyggingu Kárahnjúkavirkjunar og myndin sem birtist á forsíðu Samfylkingarblaðsins í Norðausturkjördæmi, og sem má sjá efst í þessari grein, segir meira en mörg orð um „Fagra Ísland“ Samfylkingarinnar og hversu erfitt getur verið fyrir suma að koma í framkvæmd fallegum orðum sem fest hafa verið á blað.

Helgi gleymir svo auðvitað fjölmörgum atriðum í grein sinni, þ.á.m. stuðning Samfylkingarinnar við uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík, stuðning iðnaðarráðherrans við uppbyggingu álþynnuverksmiðju við Akureyri, stuðning iðnaðarráðherrans við uppbyggingu álverksmiðja í Indónesíu og svo mætti áfram telja.

Er Jón Sigurðsson, fyrrverandi iðnaðarráðherra krata og stóriðjumógúll Íslands, ekki örugglega ennþá einn helsti ráðgjafi Samfylkingarinnar í öllum málum sem þarfnast vitrænnar skoðunar?

No comments: