Tuesday, November 20, 2007

Spilling, spilling!

Þessar ásakanir verða vafalítið það sem heyrast mun í fjölmiðlum næstu daga þegar fjallað verður um sölu fasteigna á gamla varnasvæðinu. Um er að ræða sölu Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., sem er félag í eigu íslenska ríkisins og sem fjármálaráðuneytið fer með eignarhlut í, á eignum á fyrrum varnarsvæðinu. Kaupendur eru Glitnir, Klasi, Sparisjóður Keflavíkur, Fasteignafélagið Þrek og Teigur Fasteignir. Kaupverðið er sagt vera 14 milljarðar króna.

Ekki þarf að taka fram að miklir fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi.

Gagnrýnt var á Alþingi í dag að með því söluferli sem hefði verið viðhaft í þessu tilfelli hefði verið brotið gegn lögum þar sem eignirnar voru seldar án aðkomu Ríkiskaupa og án auglýsingar á EES-svæðinu.

Ekki skal fullyrt hér um hvað er hæft í þessum ásökunum. Hins vegar er sjálfsagt að benda á að í samningi um þróun, umsjón og ráðstöfun eigna á þróunarsvæði við Keflavíkurflugvöll, sem gerður er á milli fjármálaráðuneytis annars vegar og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. hins vegar, er kveðið á um í grein 7.2. að: „Verksali [Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf.] skal ávallt við sölu, leigu eða aðra ráðstöfun á eignum ríkisins gæta þess að mismuna ekki aðilum og skal í því skyni tryggja að umræddar eignir verði auglýstar opinberlega til sölu eða leigu og val á viðsemjendum byggist ekki á öðrum sjónarmiðum en mati á hagstæðasta tilboði.“

Vegna þess hve hlutlausir, sjálfstæðir og öflugir íslenskir fjölmiðlar eru má að sjálfsögðu búast við því að rækilega verið farið ofan í alla þætti sem varða sölu á umræddum fasteignum, þ.m.t. söluferlið, tengsl milli seljenda og kaupenda o.s.frv. Þannig má ætla að í 24 stundum í fyrramálið verði á myndrænan hátt farið ofan í tengsl persóna og leikenda í málinu, líkt og áður hefur verið gert í málum af svipuðum toga. Þar verður vafalítið dregið fram að einn af eigendum Klasa og stjórnarformaður félagsins er Þorgils Óttar Mathiesen, bróðir Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Ennfremur, eins og kom fram í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, að einn stjórnarmanna Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf. er Árni Sigfússon, bæjarstjóri sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ, en með honum í bæjarstjórn Reykjanesbæjar situr m.a. Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fyrrgreinds Árna Mathiesen fjármálaráðherra. Einnig munu fjölmiðlar varpa ljósi á umtalsverð viðskipti Glitnis og Reykjanesbæjar á hinum ýmsu sviðum, sem og hagsmuni Sparisjóðs Keflavíkur í málinu og þeirra sem þar eru í forsvari. Þá verður sérlega fróðlegt að sjá hverjir eru mennirnir á bak við fasteignafélögin Þrek og Teig.

Enginn vafi verður heldur á því að fjölmiðlamenn munu í umfjöllun sinni um málið hafa í huga 5. grein siðareglna Blaðamannafélags Íslands en þar segir m.a. að blaðamaður skuli „fyrst og síðast gæta hagsmuna lesenda og sóma blaðamannastéttarinnar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í nafni starfs síns.“ Þetta er náttúrulega borðliggjandi og víst að hagsmunir lesenda liggja klárlega í því að allt verði uppi á borðum í þessu máli, enda um umtalsverðar eignir að ræða sem áður voru í eigu almennings.

Allt mun verða upplýst og ekkert dregið undan.

Eða hvað?

No comments: